fimmtudagur, 23. ágúst 2012
Batamerki
Þá er maður búinn að liggja fyrir veikur síðustu daga. Kom heim af Grímsnesinu hnerrandi í annarri hverri setningu, stífluð og fljótlega komin með eymsli í hálsinn. Lagðist í rúmið með hita og lá mánudag og þriðjudag.
Baldur var svo sætur að fara út í Fjarðarkaup og versla inn gnótt af fínum söfum: grænmetissafa, heilsusafa, engifersafa. Líka appelsínur, möndlumjólk, flatbrauð og ólívutartex og hálsbrjóstsykur úr hvönn.
Eftir góða hvíld og umhyggju var ég í gær orðin rólfær og útbjó þá bananaís úr möndlumjólk, svona vegan útgáfu sem er ansi frískandi. Náði líka að fara á Gló í hádeginu með pabba og Huldu í yndislegu veðri þar sem hitamælarnir sýndu 18 gráður.
Í dag fór ég síðan út úr húsi því pestin er farin þó svo að enn sé svolítið í að ég ná fullu batteríi. Kíkti í heimsókn til mömmu og þaðan fórum við Baldur á Aðalbókasafnið. Sátum heillengi og kíktum í bækur og ég byrjaði að lesa bókina Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur.
Frá bókasafninu röltum við aðeins um miðbæinn og skruppum inn í 10-11 til að fóðra síhungraðan Baldurinn. Þar hittum við Helenu vinkonu okkar úr sjósundinu. Við áttum mjög skemmtilegt og inspírerandi samtal, svo mjög að eftir að við höfðum kvaðst fórum við Baldur á kaffihúsið fyrir ofan Iðu og héldum samtalinu gangandi okkar á milli.
Við ákváðum að taka strætó heim og urðum til þess að verða okkur úti um skiptimynt. Til þess urðum við að fara í hraðbanka og svo í Iðu til að skipta yfir í fimm hundruð kalla og hundrað kalla. Það er mikið fyrir þessu haft! En áður en við fórum upp í strætó varð okkur hugsað til bláberjanna okkar af norðurlandi svo við skruppum aftur inn í 10-11 til að verða okkur úti um skyr og rjóma. Tókum svo leið 1 heim í Garðabæinn og fengum okkur rjómaskyr í kvöldmat.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli