En bústaðurinn var ansi frumstæður, ekkert rafmagn eða rennandi vatn og á unglingsárunum var maður alveg hættur að nenna að fara í bústaðinn. Nú hefur bústaðurinn hins vegar verið tekinn í gegn. Nú er komið rafmagn og rennandi vatn, hitaveita meira að segja, klósett og sturta. Þessar breytingar hafa átt sér stað undanfarinn áratug, alltaf smá bætur hér og þar, en á síðustu árum hafa breytingarnar hins vegar verið örari og umsvifameiri. Nú er bústaðurinn kominn með nýjan inngang, nýklæddur að utan, risaverönd, búið að fletja út grasflötina og byggja lítinn geymslukofa.
Eftir flakk undanfarinna ára var kominn tími fyrir mig að kíkja við og taka út herlegheitin. Við tókum því stefnuna á Grímsnes í hefðbundinn sunnudagsrúnt með pabba og Huldu. Komum við í Litlu Kaffistofunni og fengum okkur létt nesti. Upp með öllum veggjum eru veifur og fánar ýmissa fótboltafélaga, m.a. Rosenborg fáninn sem Baldur lét mynda sig með í bak og fyrir til að geta sent Kim, aðdáenda nr 1, sönnunargögn.
Upp í bústað hugaði Hulda að jarðarberjaplöntunum á meðan við hin tókum fram sólstólana og nutum þess að horfa yfir landið og út að Ingólfssfjalli. Rifum í okkur harðfisk og ég fann su doku bók og fór að glíma vit þrautina.
Eftir að hafa viðrað bústaðinn lokuðum við og læstum og keyrðum sem leið lá upp í Slakka. Þangað kom ég síðast sumarið '98 með pabba, Andra og vinkonu minni Gry sem þá var í heimsókn á landinu. Hulda sagði að henni hefði alltaf langað að kíkja en alltaf vantað börn til að fara með. Nú vorum við Baldur semsé komin í það hlutverk. Við létum heillast af silkihænunum og svo voru svínin líka mjög skemmtileg, sérstaklega þegar þau stungu hausunum út um kringlótt götin og tóku að hrína á okkur.
Frá Slakka lá leiðin yfir í sundlaugina á Borg sem er lítil og sæt og alveg fínt að synda á brautunum. Enduðum síðan á Kaffi Krús á Selfossi í pizzu. Sigldum svo heim á leið eftir þessa vel heppnuðu heimsókn austur fyrir fjall.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli