sunnudagur, 19. ágúst 2012

Menningarnótt 2012

Þá er ein Menningarnóttin í viðbót liðin undir lok. Að þessu sinni var okkar degi skipt í tvennt. Fyrri parturinn hófst eldsnemma morguns þegar við drifum okkur í Eskihlíðina til að sækja tvær skottur. Hugmyndin var að fara með þær á vel valda staði og fylgjast með foreldrum þeirra í Reykjavíkurmaraþoninu og veita þeim innblástur og aukna lífsgleði með þar til gerðum klappstýrulátum.

Við byrjuðum á Suðurgötunni þar sem eins kílómetra markinu var náð. Stóðum og biðum spennt eftir  hlaupurunum og það var ekki laust við að gæsahúð léti á sér kræla þegar hlaupandi haf að marglitum bolum tók að strauma inn götuna. Við urðum fljótlega að hörfa af gangstéttinni og troða okkur inní runna, slíkur var fyrirgangurinn. Við náðum þó markmiðinu okkar sem var að veifa í Stellu og Kristján og hrópa á eftir þeim Áfram! Áfram!

Næst ákváðum við að hlaupa yfir í JL húsið og standa við Eiðisgranda. Vorum mætt alltof snemma enda ekki hægt að ætlast til að maraþonhlauparar hlaupi hraðar en Usain Bolt á sínum bestu sprettum. Stilltum okkur upp hjá tveimur afskaplega vinarlegum konum frá FAAS, félagi áhugafólks og aðstandenda Alzheimersjúklinga. Þær gáfu stelpunum hvorn sinn heimagerða hrossabrestinn, brotinn og búinn til úr gömlum matseðlum frá grillveitingastað í Eyjum, geri aðrir betur. Þær voru líka með flautur og fána og ætluðu svo sannarlega að hylla sitt fólk sem hljóp í þágu félagsins. Okkar fólk hljóp til styrktar Indlandsbarna enda Indlandsfarar sjálf.

Eftir að hafa veifað á eftir báðum hlaupurunum okkar og hvatt þúsundir annarra hlaupara fórum við á seinasta áfangastað sem var Sæbrautin. Þá var farið að draga aðeins úr sjálfum klappstýruhópnum, hver hefði trúað að það tæki svona á að hvetja svona margt duglegt fólk? Á Sæbrautinni sáum við Stellu svífa framhjá, alveg næstum komin í mark, og brunuðum síðan nær miðbænum þar sem við stelpurnar gengum í gegnum Þingholtin og ruddum okkur braut í gegnum mannhafið eins nálægt Íslandsbanka í Lækjargötu og hægt var. Hittum hlauparana á flötunni fyrir framan MR, flatmagandi í grasinu. Létu það síðan ekki eftir sér að hjóla heim eftir átökin á meðan við lúsuðumst upp í Eskihlíð á bílnum í mega umferðaröngþveiti.

Enduðum þennan fyrri part dags á því að setjast niður saman og fá okkur rúnstykki með osti og bláberjasultu og djúsí múffur með.

Morgunstund
 
Í stríðum straumi
 
Klappstýrurnar
 
Fjölskyldumynd
 
 
Eftir verðskuldaða hvíld upp í Garðabænum fórum við seinni partinn aftur niður í bæ, að þessu sinni í samfloti með pabba. Byrjuðum á því að kíkja inn í Hörpuna og var það mín fyrsta heimsókn þangað. Ég hafði ekki gert mér neinar hugmyndir um bygginguna og innviði hennar. Röltum upp alla stigana, alla leið að veitingastaðnum Kolabrautin. Ég hafði mjög gaman af stöllunum sem liggja samsíða stiganum, þar sem fólk getur tyllt sér niður með léttar veitingar og spjallað og horft út yfir borgina og bygginguna.
 
Á jarðhæðinni var líka að finna sýningu á verkum færeysku glerlistakonunnar Mikkalínu Norðberg. Ég féll alveg kolflöt fyrir þessum litskrúðugu og formfögru fuglum  hennar. Fyrir utan Hörpuna voru tónleikar hljómsveitarinnar Boogie Trouble í fullum gangi. Svolítið eins og að stíga nokkra áratugi aftur í tímann að hlusta á þau og horfa. Sem mér finnst alveg hið besta mál, því þau voru með þétt og gott sánd og ég hafði mjög gaman af því að hlusta og horfa á þau performa.
 
Úr Hörpunni röltum við eftir Pósthússtræti og svo að Forréttabarnum þar sem við fengum okkur að borða. Urðum reyndar að bíða ógeðslega lengi en það er svo sem ekki við öðru að búast þegar það er svona margt um manninn í bænum. Að áeggjan Baldurs spilaði pabbi sig hins vegar grunlausan og fór að spyrja aumingjans gengilbeinuna hvernig stæði á því að það væri svona mannmargt í miðbænum. Hún tók mjög þolinmóð að útskýra að það væri Menningarnótt og fannst ekkert skrýtið að hér væri maður á ferð sem ekki  hefði hugmynd um hvað það væri. Pabbi sagðist þá hafa haldið að mannfjöldinn stafaði af því að Reykjavík hefði verið að fá kaupstaðarréttindi og þá varð stúlkan fyrst undrandi en svo uppveðruð: Já, er það? Ég vissi það ekki. Þá sagðist pabbi reyndar halda að það hefði gerst fyrir rúmum tvö hundruð árum og það fannst henni sniðugt.
 
Við nenntum ómögulega að bíða eftir desert þarna á Forréttabarnum enda var ég farin að iða í sætinu og fannst ég vera að missa af öllu fjörinu. Drifum okkur því út í stuðið og kíktum á Austurvöll þar sem Ný dönsk var að hefja sína spilamennsku. Nenntum eiginlega ekki að hlusta á þeirra alltof kunnuglegu - en vissulega góðu - lög svo við héldum yfir á Arnarhól. Sem betur fer segi ég nú bara. Þar fengum við að heyra í þeim Jónasi og ritvélum framtíðarinnar með sína töff tóna. Baldur rétt eins og ég varð impóneraður og spurði því fólkið við hlið okkar hvort þau vissu hverjir væru að spila. Þau sögðu þetta vera hann Jónas og ritvélar framtíðarinnar og undruðu sig svolítið á því að ungur maðurinn skyldi ekki þekkja til þeirra. Baldur sagði þá að hann byggi erlendis og vissi ekkert hvað væri að gerast í tónlist. "En þú talar mjög góða íslensku" sögðu þau þá við hann uppörvandi.

Með Jónasi töldum við úr tíu og niður í flugeldasýninguna - yfir í þá slöppustu sem sést hefur held ég. En hún átti góðan endasprett, vildi bara byrja rólega eins og skynsamur maraþon hlaupari myndi ábyggilega líka gera.

Færeysk glerlist
 
Smábátahöfn
 
Harpan
 
Untitled
 
Untitled
 
Jónas og ritvélar framtíðarinnar
 
Untitled
 
Ys og þys

2 ummæli:

Augabragð sagði...

Alltaf gaman að lesa bloggin þín Ásdís og frábærar myndir hjá þér!

ásdís maría sagði...

Ó takk takk! Mikið er gaman að heyra það :) Right back at yah!