Ég gleymdi alveg í gær að skrifa færslu dagsins þar sem ég var svo upptekin við að lýsa því sem gerðist á mánudaginn. Núnú, leshópurinn Verð að skilja hittist í annað sinn en í þetta skiptið vorum við aðeins fjórar því Lísa var veik. Við ætluðum að taka fyrir þrjá kafla og sáum fram á að í versta falli tæki það okkur þrjá tíma og okkur hryllti við að þurfa að sitja við og ræða kenningar í þrjá tíma. Við erum greinilega of bjartsýnar því við vorum langt frá því að vera sannspáar. Á þessum þremur tímum tókst okkur að fara yfir einn kafla, einn vesællegan kafla. Hveru mikið er eiginlega hægt að skrifa um marxíska mannfræði, mér er bara spurn?
Baldur hringdi í dýralækni uppí Víðidal og spurði hvað amaði að kisu. Hún drekkur og drekkur vatn í lítravís og að sama skapi pissar hún í lítravís. Læknirinn sagði að þetta væru nýrun og að það þyrfti að gefa henni sterasprautu til að koma þessu í lag. Greyið litla, sæta kisa er að verða að steratrölli.
Hmm, ég er að velta fyrir mér deginum í dag og hef komist að þeirri niðurstöðu að nákvæmlega ekkert markvert gerðist í dag. Jú, reyndar eitt. Kennarinn í kenningum í félagsvísindum, hann Svanur, mætti í umræðutímann í dag. Nú hljómar það ekkert stórfenglega, kennari mætir í tíma, en þetta markaði tímamót. Þannig er mál með vexti að fyrir viku síðan var fyrsti umræðutíminn okkar um Weber og allir nemendur mættu galvaskir og vel lesnir til leiks enda búið að banna okkur að mæta ólesin í þessa tíma. Eftir langa bið voru nemendur farnir að líta í kringum sig með undrunarsvip sem síðan breyttist í frábært-það- er-ekki-tími svip. Heim á leið héldum við því flest, litlu nær um skilgreiningar Webers á Ideal Types. Á mánudaginn var síðan tími og við biðum spennt eftir að vita hvað hafði komið upp á, eitthvað hræðilegt varð það að vera til að sleppa tíma með okkur. Við vorum því alls ekki tilbúin til að heyra að kennarinn góði hafði einfaldlega gleymt að mæta í tímann! Hann vildi þó taka það skýrt fram að þó hann væri prófessor væri hann ekki oft utan við sig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli