Í dag vorum við Baldur með drenginn sem við erum með í liðveislu. Það gekk mun betur í dag en fyrir viku síðan, þá var ég í fyrsta skipti alein með hann og það gekk mjög illa. Hann er framheilaskaðaður, slasaðist í bílslysi þegar hann var sjö ára, og það einkennir slík börn að þau eru mjög hvatvís og hömlulaus. Hann á það t.d. til að hlaupa allt í einu út úr húsinu og þá verð ég að gjöra svo vel og hlaupa á eftir honum á sokkaleistunum. Hann getur nefnilega aldrei verið einn, það þarf að passa hann hverja stund og ég get ímyndað mér hversu pirrandi það hlýtur að vera fyrir barnið. Hvað varðar hömluleysið þá vill hann helst borða og borða og það gengur ekkert að fá hann ofan af því. Mamma hans sagði að þetta væri alltaf erfitt fyrst og að hann léti alltaf svona fyrst þegar hann væri kynnast fólki.
Dagurinn í dag og undanfarnir dagar hafa verið alveg magnaðir, þetta líka sumarveðrið. Ég las í Mogganum um daginn að það hafi aldrei mælst eins hár hiti hér á Íslandi svona seint á árinu síðan mælingar hófust, það var seinast árið 1956 að mig minnir sem veðrið var eitthvað svipað, en þá mældist hitinn um 16° þann 1. október. Í tilefni þessa góða veðurs fórum við Baldur í hádeginu og fengum okkur ís, settumst síðan á bekk í góða veðrinu og nutum þess að vera til. Það var bókstaflega vor í lofti og ég vona svo sannarlega að það haldist í einhvern tíma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli