Við biðjumst afsökunar á því að hafa skrópað í gær en málið er að við komum svo seint heim að við gátum ekki mögulega hugsað okkur neitt annað en sofna á stundinni. Mánudagar eru nefnilega ansi langir og dagurinn í gær var extra langur því við vorum búin að ákveða að hafa kósýkvöld og gera eitthvað skemmtilegt saman. Eftir skóla og lyftingar fórum við því á Hlöllabáta og fengum okkur rosagóðan bát. Eftir það fórum við upp á Bókhlöðu og þar var ég að leita að heimildum fyrir ritgerðina í Mannfræði barna. Ég er búin að ákveða að skrifa um leiki barna og það er sko til nóg af upplýsingum um það efni. Það versta er að þetta er svo stutt ritgerð, aðeins 2500-3000 orð. Reyndar mismælti kennarinn sinn í fyrsta tíma og sagði að ritgerðin ætti að vera 2500-3000 blaðsíður en var fljót að leiðrétta sig þegar hún sá nemendur falla umvörpum í yfirlið. Svenni í kenninugum II gerði þetta líka, sagði okkur að ritgerðin þar ætti að vera 10000 blaðsíður í stað orða. Ég vona svo sannarlega að þau í mannfræðiskor séu ekki að reyna að koma á breytingum varðandi lend á ritgerðum og séu með þessum "mismælum" að láta okkur venjast þeim.
Þegar Bókhlöðunni var lokað röltum við síðan yfir í Háskólabíó og keyptum miða á Some Like It Hot með þeim félögum Jack Lemmon, Tony Curtis og Marilyn Monroe. Þessi mynd er algjör perla, alveg frábær og ég mæli með því að allir taki frá eitt kvöld og glápi á hana. Það eru víst margir sem telja hana eina af bestu grínmyndum okkar tíma. Nóg um það, myndin var heilir tveir tímar (ekkert hlé) og við vorum því komin heim eldsnemma að þriðjudagsmorgni, þ.e. kl. 01:00. Við höfum því góða afsökun fyrir að skrifa ekki í gær.
Það er eitt að lokum. Sunnudagurinn seinasti var æðislega skemmtilegur, ég fór eftir matarboðið til Maríu vinkonu, hún var með smá stelpukvöld og mikið var gaman að hittast. Við höfum ekki hist í marga mánuði og núna þegar við hittumst var hún komin með litla, sæta bumbu þar sem kúlubúinn, eins og hún kallar hann, dvelst. Þetta verður ábyggilega myndarpiltur og ég bíð spennt eftir 24. janúar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli