föstudagur, 31. janúar 2014
Gulrótakaka
Föstudagsuppskriftin að þessu sinni er gulrótakaka. Þessa bakaði ég fyrir viku á bóndadag og hún sló í gegn. Þétt í sér, vel krydduð, mjúk, djúsí og sæt. Og kremið! Ó, elsku krem.
Það er best að vara við einu. Þessi uppskrift er huge! Ég var eitthvað utan við mig og gleymdi að helminga hana eins og ég hafði ætlað mér. Ég endaði með tvo botna og tíu möffins! Möffinsin fóru inní frysti en kökuna setti ég saman úr botnunum tveimur.
Gulrótakökur eru svolítið vesen í samanburði við aðrar hrærðar kökur því maður þarf að rífa þessar blessuðu gulrætur. Ég get ekki notað rifjárnið á matvinnsluvélinni minni til að auðvelda mér verkið og því geri ég þetta allt handvirkt. En að öðru leyti er þetta ísí písí og afraksturinn er svo innilega vinnunnar virði.
Uppskriftin kemur frá Evu Laufey.
HVAÐ
Í deigið:
4 egg
2 bollar púðursykur
3 bollar rifnar gulrætur
1,5 bolli matarolía
1 tsk vanilla
2 bollar hveiti
2 tsk matarsódi
2 tsk kanill
1 tsk múskat
1 tsk salt
Í kremið:
250 g flórsykur
200 g rjómaostur, við stofuhita
20 g smjör, við stofuhita
1 tsk vanilla
2-3 sítrónudropar (ef vill)
Til skrauts: Valhnetur (ef vill)
HVERNIG
1. Hitið ofninn í 170°C. Skrælið og rífið niður gulræturnar. Smyrjið tvö kringlótt form (20 sm).
2. Þeytið saman egg og sykur þar til blandan er létt og ljós.
3. Bætið við gulrótum, olíu og vanillu.
4. Blandið saman hveiti, matarsóda, kryddi og salti og sigtið út í hræruna. Hrærið þar til allt hefur gengið vel saman.
5. Hellið deiginu í form. Bakið í 30-40 mín. eða þar til kantarnir hafa losnað frá forminu og hnífur, sem stungið er í kökuna, kemur hreinn út.
6. Leyfið kökunni að kólna alveg eftir að hún kemur úr ofninum.
7. Útbúið kremið: blandið öllu saman og hrærið vel saman.
8. Smyrjið kreminu milli botna, ofan á og á hliðarnar. Gaman er að skreyta með hökkuðum valhnetum, sem koma einstaklega vel út með kökunni.
Þessi kaka er betri daginn eftir og því kjörin að baka fyrir afmæli þegar maður þarf að geta forunnið sem mest.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli