Flestir á fróni kannast við hinn ágæta söngvara Queen: Farokh Bulzara, betur þekktan sem Freddie Mercury. Sumir kunna meira að segja svo vel að meta hljómsveitina og þá sérstaklega Freddie að ástæða þótti til að mæta til Óskars klæðskera og spyrjast fyrir um hvort hann gæti hrist eitthvað af litríkum fataskáp kappans fram úr erminni.
Þegar á hólminn var komið reyndist Óskar, sem er frá Búrma, ekki hafa hugmynd um hvern við værum að tala um. Ég brá á það ráð að leita uppi myndir af Freddie á netinu sem Óskar vildi ólmur prenta út, hverja á fætur annarri. Honum leist heldur betur vel á hugmyndina og lét hrifningu sína á myndunum í ljós með upphrópunum á borð við: Elegant, classic, very tasteful!
Svona hélt þetta áfram í smástund og þegar við kvöddum Óskar hélt hann ekki aðeins á myndum af Freddie heldur líka Napoleoni nokkrum Bonaparte (Napoleon var þó bara í gríni). Þar sem hungrið var eitthvað farið að segja til sín drifum við okkur á svakafínan amerískan veitingastað í miðri Bangkok og nutum veitina undir söng og spilamennsku þrælgóðs dúetts. Kom dúettinn víða við og spilaði m.a. Jack Johnson, Arlow Guthrie og Extreme. Við tippuðum þá meira að segja til að fá eitt aukalag.
Þegar við svo komum út af staðnum, södd og sæl, var fólk í óðaönn að stilla upp varningi fyrir næturmarkað. Klukkan var að skríða í miðnætti svo það er óhætt að segja að markaðurinn beri nafn með rentu. Við létum aðra um markaðinn og rúlluðum heim á leið til að lúlla í vorn haus.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli