Loksins fæ ég að blogga á netinu. Ásdís og Baldur hafa nebbilega leyft mér að vera gestabloggari í dag, líklega eru þau orðin þreytt á þessu sjálf. Takk fyrir það.
Þar sem ég er í fyrsta skipti í Asíu verð ég að segja að nánast allt virkar mjög framandi á mig. Það er þó aðallega fólkið sjálft sem kemur mest á óvart. Allir eru sífellt í góðu skapi og alltaf brosandi. Þegar betur er að gáð og maður fer aðeins að kynnast fólkinu er það auðvitað misjafnlega glatt frá degi til dags, en aðallega eru allir mjög kurteisir og jákvæðir. Þetta sama virðist vera hjá öllum, jafnt þeim bláfátækustu til allra hinna. Þegar við Baldur gengum um það hrikalegasta fátækrahverfi sem til er á jörðinni heilsuðu allir og buðu okkur velkomna. Sabadde kap.
Börnin eru líka alveg ótrúleg, alltaf glöð. Það vantar kannski bæði skóna og fleira, en þau syngja bara í staðinn og brosa. Valkvíði Vesturlandabúans er alveg fjarri, heldur er fókusinn hér á einfaldleikann. Semsagt hugsunarháttur fólksins hér er allt öðruvísi en ég á að kynnast.
Að deginum okkar í dag. Við byjuðum á því að fara í vinnuna, eins og Baldur kallar það. Við fórum semsagt niður í Acer að sækja blessaða tölvuna í síðasta sinn. Núna erum við búin að læra að spara okkur hluta af hinu hrikalega umferðaröngþveiti Bangkok með því að bjóða leigubílstjórunum að fara hraðbrautina og við borgum gjaldið. Þetta sparar klukkutíma og við svífum yfir borginni á hraðbraut sem byggð er á stólpum. Allt þetta kostar 40 Bat = 80 ísl. kr. en sparar klukkutíma. Bílstjórarnir fóru hiklaust í öngþveitið til að spara peninginn.
Undir hraðbrautinni þrífst allskonar starfsemi svo sem opnar verslanir, veitingasala og hvaðeina. Einnig sá ég róluvöll undir hrauðbrautinni við hliðina á neðri götunni. Ekki leyft heima reikna ég með. Hér er allstaðar fólk. Í öllum skúmaskotum, undir brúm, uppá þökum, allstaðar krökkt af fólki.
Leigubílaviðskiptum dagsins lauk að mestu með umræðum við kjúklingasölumann sem var að keyra leigubíl á milli starfa. Hann vildi fara með okkur dagsferðir hingað og þangað og kostaði dagurinn fimm þús ísl.kr. frá morgni til miðnættis.
Eftir að hafa farið með myndavélina til viðgerðar í einn turninn fengum við að vita að hæpið væri að það borgaði sig að gera við gripinn. Við enduðum með að fara i annan turn, 64 hæða Lebua hótelið nálægt Lumpini Park til að fá okkur snarl og sjá útsýnið. Ekki vantar glæsilegu háhýsin í borginni og eru þau sú allra glæsilegustu sem ég hef séð. Þegar upp var komið með lyftunni var okkur auðvitað vísað frá, þar sem við vorum klædd eins og villimenn, í stuttbuxum og sandölum. Hér skal fólk vera dísent. Við fengum þó að skoða útsýnið yfir Bangkok hjá ofurkurteisri sætavísunni.
Konungsdagur er í dag, það er að segja mánudag, en þá klæðast margir hér gulu til að sýna konungshollustu sína í verki, sérstaklega bolum eða slíku. Einhver órói er samt til staðar, enda ríkir hér herstjórn í skjóli konungsins. Þegar við komum úr turninum brutust skyndilega út óeirðir framan við turninn á milli einhverra hópa og hlupum við aftur inn eins og hræddir krakkar og fylgdumst með látunum frá Starbucks kaffihúsinu sem fékk svo óvænt nýja íslenska viðskiptavini. Loftkælingin var þó slík að við urðum að flýja fram á gang vegna ofurkælingarinnar.
Við tókum Skytrain á Siam torgið og fundum þar japanskan veitingastað með matseðill upp á tæpa 300 rétti. Allir voru þeir hver öðrum betri.
Elfar Ólason, Bangkok.
1 ummæli:
Mér þykir þú gleyma skemmtilega bílstjóranum frá Laos sem keyrði okkur upp í Acer og beið þar með mér eftir ykkur og lét sig hafa það að læra að segja upp á íslensku: Hvað heitir þú? og Góðan daginn, að ógleymdu því að telja upp á fimm: einn, tveir, þrír, fjórir, fimm!
Svo vil ég að sjálfsögðu róa alla sem lesa um óeirðirnar, vissulega voru gúmmíkylfur í spilinu en þetta voru skólastrákar að berja á nemendum úr öðrum bekk eða skóla, semsé ólíklegt að um hápólítískar deilur hafi verið að ræða. Ég get þó að sjálfsögðu ekki gert lítið úr pólitík unglingsáranna, tilvera hennar er of plássfrek til þess :o)
Skrifa ummæli