föstudagur, 27. desember 2013

Hvítlauks-parmesan kartöflumús

Hvítlauks-parmesan kartöflumús

Við ákváðum fyrir jól að prófa að hafa eitthvað alveg nýtt á boðstólum þessi jólin. Við höfum alltaf haft hnetusteik í öll mál yfir öll jólin, og líka á gamlárskvöld, en eftir þriðja skammt er maður kominn með nokkuð gott af hnetusteik.

Hér í Noregi er hægt að kaupa marineraða kalkúnabringu sem er tilbúin á borð eftir 40 mín. í ofni. Okkur hefur lengi langað að prófa kalkún fyrir jól svo við létum slag standa og sáum ekki eftir því. Besti jólamatur sem ég hef nokkurn tímann fengið.

Meðlætið spillti svo ekki fyrir. Við vorum með haricote verte í sýrðum rjóma, fansí piparsósu með sherrý og síðan þessa æðislegu kartöflumús sem Baldur vippaði saman á nóinu. Hún er svo góð að maður gæti borðað alla skálina og sleikt innan úr henni áður en maður man að það er annar matur í boði.

Og þetta er tiltölulega einfalt. Smá handavinna en til þess hefur maður hendurnar.

HVAÐ
1,5 kg kartöflur
2 msk salt
475 ml rjómi
6 hvítlauksgeirar, marðir
170 g parmesan, rifinn

HVERNIG
1. Skrælið kartöflurnar og skerið í teninga af sömu stærð.
2. Setjið í pott með vatni og salti. Náið upp suðu og látið síðan malla við vægan hita þar til kartöflubitarnir detta í sundur þegar gafli er stungið í þá.
3. Hitið rjómann og hvítlaukinn í skaftpotti á miðlungshita, þar til rjóminn er farinn að krauma. Takið þá af hellunni og leggið til hliðar.
4. Hellið af kartöflunum þegar þær eru tilbúnar. Stappið þær og bætið út í hvítlauksrjómanum og parmesan. Hrærið vel til að tryggja að allt gangi saman.
5. Látið standa í 5 mín. svo stappan fái þykknað.

Mér finnst skemmtilegt að skreyta með saxaðri steinselju.

Engin ummæli: