Við komum eldsnemma í morgun til Bikaner með næturrútunni frá borginni gullnu, Jaisalmer. Þar sem við höfðum engin plön um að gista í bænum fórum við rakleitt á lestarstöðina þar sem við fengum að geyma bakpokana.
Eftir góða hvíld og morgunmat á boðlegum veitingastað héldum við út í daginn að sinna okkar eina erindi. Í þetta sinn var erindið að heimsækja Karni Mata hofið sem hefur þá sérstöðu að vera rottuhof.
Það tók okkur góðan klukkutíma og hálfan að komast að rottuhofinu, rútan var nefnilega alltaf að stoppa og hlaða á sig meiri varningi. Stundum held ég að Indverjar geri engan greinamun á samgöngum fyrir fólk annars vegar og vöruflutningum hins vegar.
Hvað um það, við komumst loks að rottuhofinu og skoðuðum okkur um. Eins og í öðrum hindúa hofum verður maður að gjöra svo vel og fjarlægja allt skótau sem þýddi að við urðum að tippla um á skítugum marmaranum og forðast að stíga í rottuskít og á rottuskott. Rottuhofið er sem sé fullt af rottum og þangað koma hindúar til að færa fórnir. Þeir trúa því að rotturnar séu endurfæddar sálir sem á sínum tíma var hlíft við reiði Yama, guðs dauðans.
Ég get ímyndað mér að ófáir fari ófúsir inn í þetta hof. Ég aftur á móti er svo hrifin af rottum eftir að hafa séð David Attenborough þátt um þær að ég var lengi búin að hlakka til að heimsækja rottuhofið. Ég varð hins vegar fyrir nokkrum vonbrigðum. Fyrir það fyrsta voru rotturnar mun færri en ég hafði gert mér í hugarlund. Þá voru aðstæður fyrir rottugreyin bágbornar svo ekki sé meira sagt. Margar þeirra voru illa útleiknar, með rytjulegan feld og veiklulega tilburði. Við sáum nokkrar í dauðateygjunum og höfðum lítt gaman af. Hvernig væri að hugsa aðeins betur um blessaðar endurbornu sálirnar fyrst maður er á annað borð að hafa fyrir því að reisa þeim hof?
Þegar við höfðum gengið um hofið á ofurheitum marmaranum og nær brennt okkur á skítugum iljunum sögðum við það gott af rottum. Fyrir utan hofið fundum við okkur setstað og gáfum okkur góðan tíma í að þrífa iljar og tær vel og vandlega. Ég legg ýmislegt á mig til að sjá markverða staði, en að fá orma í gegnum iljarnar er ekki ofarlega á listanum.
Myndir úr rottuhofinu eru komnar á netið. Við einblíndum á að taka myndir af sætum rottum svo engum ætti að blöskra. Hverjum finnst ekki sætt að sjá rottur sem spúna og flatmaga?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli