Í morgun komum við örþreytt hingað til Amritsar eftir óvenju óþægilega rútuferð. Eftir að hafa reynt á hina margfrægu gestrisni Sikha ákváðum við frekar að finna hótel í grennd við lestarstöðina og eftir að hafa skoðað nokkur fundum við eitt sem við gátum hugsað okkur að leggja okkur á fyrir skoðunarferð dagsins.
Við ákváðum að gera svipað og í Delhi, leigja bílstjóra og bruna á þá staði sem væru áhugaverðir: Gullna hofið og landamæraathöfn við sólarlag. Gullna hofið var mjög fallegt á að líta og í síkinu umhverfis það böðuðu pílagrímarnir sig áður en þeir færu inní helgidóminn. Við létum okkur duga að ganga hring um hofið og slepptum innviðunum, stemningin var aðalatriðið.
Næst ók bílstjórinn okkur að landamærum Indlands og Pakistans en þar er á hverjum einasta degi, við sólarlag, haldin litrík landamærasýining sem gengur út á að að sýna mátt þjóða og megin. Af hálfu Indverja er þetta gert með þeim hætti að allir veifa fána sínu landi til stuðnings og öskra eitthvað um að Indland sé best í heimi og er ég ekki viss hvort einhver ókvæðisorð um nágrannana fljóti með. Í ofanaálag er maður með hljóðnema að æsa múginn enn frekar og hvetja til meiri láta og gefa þeim einhver heróp til að gala.
Andrúmsloftið minnti helst á blöndu af hersýningu, opnun ólimpíuleikanna og breskum fótboltaleik. Fyrst hlupu Indverjar á öllum aldri með stórann fána að landamærahliðinu, veifuðu honum og hlupu til baka. Allt með dyggum stuðningi af áhorfendappöllunum. Síðan fóru litlir hópar af fólki að sýna sjálfstæð og sérindversk dansatriði en voru svo rekin í burtu svo landamæraverðirnir gætu sinnt seremóníudjobbinu sínu.
Fyrst öskrar einn þeirrar eitthvað heróp og heldur tóninum eins lengi og hann getur, eftir það fær einn að marsera að landamærahliðinu og svona gengur það koll af kolli í smástund. Þá eru hliðin opnuð undir fagnaðarlátum æsts fjöldans og landamæraverðir beggja þjóða draga þjóðfána sína niður af stöngum sem standa við hliðið. Svo spennt var fólk að hópur sem fannst fólkið fyrir framan skyggja á útsýnið hóf að skvetta á það vatni. Það er óhætt að segja að fjörið hafi verið pínulítið geðveikt.
Sýningin í heild sinni var hin skemmtilegasta og sérstaklega gaman að koma í svona aðgreiningarstemningu eftir að heimsókn á helgasta stað Sikha en trúarbrögð þeirra snúast víst mikið um einingu. Öðru hverju gjóaði ég augunum yfir til Pakistans og virtist mér fólkið þar mun settlegra á að líta og taka þessu öllu af meiri ró. Er ég viss um að Pakistanarnir hafi verið þakklátir fyrir landamærin þegar þeir horfðu upp á apalætin í indverskum frændum sínum.
Myndir eru hér!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli