föstudagur, 27. apríl 2007

Kamelsafaríið

Klukkan átta í gærmorgun vorum við Ásdís komin á bak tveggja kameldýra. Við vorum hluti af sex manna hóp auk fjögurra leiðsögumanna. Riðum við rétt rúman klukkutíma en þá var fyrsta áning og var skuggi nokkurra trjáa notaður til að bjarga okkur frá geislum sólarinnar sem urðu æ sterkari.

Við flatmöguðum í skugganum meðan fararstjórarnir elduðu ofan í okkur indverskan hádegismat og eftir hádegismatinn var flatmagað enn meira, í þetta sinn síesta. Ekki var stoppið nú beinlínis stutt því þetta tók eitthvað í kringum fimm tíma með öllu.

Þá var stokkið á bak aftur og tekinn þriggja tíma túr undir miskunnarlausri sólinni, sem betur fer vorum við með sólarvörn númer 50 og svo var vatnsbrunnur á leiðinni sem bauð upp á svalandi busl innan um þyrstar kýr, kameldýr, hunda og geitur. Ekki er margt að sjá í svona eyðimörk en þó rákumst við á mjög svo viðeigandi beinagrindur, stöku geitahjörð, hunda og ég sá meira að segja antilópu á harðahlaupum!

Seinnipart dags náðum við að sandöldunum en þar var planið að gista. Þessar sandöldur voru enn eyðimerkurlegri en aðrir hlutar ferðarinnar, svona eins og þegar Tinni var í Sahara. Enn á ný tóku fararstjórarnir við eldamennskuna, söfnuðu sprekum og elduðu dal, hrísgrjón og bökuðu chapatti yfir hlóðum.

Eftir matinn var komið að langþráðri hvíld því sólin og trunturnar eru ekki beinlínis til að auka þrek manns. Eftir að hafa fundið góðan stað með hagstæðri vindátt, með tilliti til sífretandi reiðskjótanna, fór hópurinn hægt og sígandi að taka á sig náðir og þegar var orðið aldimmt blasti við okkur stjörnubjartur himinn með tungli sem helst minnti á litla sól.

Í morgun lögðum við svo snemma í hann, eftir hafragraut og kex sem skeiðar, til að ná góðum áningarstað áður en sólin yrði of sterk. Mér fannst hún reyndar of sterk um leið og hún kom upp en það er önnur saga. Ég kaus að fara fótgangandi sem var bæði þægilegra og fljótlegra auk þess sem heilsubótarganga myndi vera góð lækning á heilsubrest sem kallast kamelklof.

Um ellefuleytið var áð og hangsað til svona þrjú. Um þetta leyti var mig farið að langa heim en varð þó að þrauka tveggja tíma göngu til viðbótar og nú gekk Ásdís mér til samlætis. Í svona ferð er hitinn gjörsamlega ærandi og lærir maður vel að meta litla hluti sem tilheyra daglegu lífi í siðmenningunni. Við vorum t.d. alveg tilbúin til að greiða vænar fúlgur fyrir kalt vatn og sáum kaldan eplasafa í hyllingum. Það má með sanni segja að þessi kamelpakki hafi verið þrekvirki mikið.

Þegar jeppinn kom svo loksins að sækja okkur fengum við ísjökulkalt vatn á flöskum og getur ekki nokkur maður trúað hve svalandi það var eftir tveggja daga drykkju á 45-50°C heitu og hálffúlu vatni, þvílík gleði.

Hér eru myndirnar!

Engin ummæli: