Stundum er lífið eins og góð skáldsaga. Dagurinn í dag var svolítið mikið þannig og mun um aldur og ævi vera minnst sem hins ekta páskadags.
Fyrst smá undanfari: Þar sem Kerala er kristnasta fylki Indlands féll páskadagur ekki í gleymsku eins og kannski hefði getað gerst hefði maður verið staddur annarsstaðar á landinu. Guð sá nefnilega til þess að við gleymdum ekki hvaða dagur væri, það er alveg víst.
Þennan páskadag kvöddum við sæta bæinn Kumily til að halda í átt til strandar. Þegar við stigum út af hótelinu um morguninn, klifjuð í bak og fyrir, stönsuðum við í sporunum og misstum andlitið. Úti var létt rigning, fyrsta rigningin okkar í Indlandi. Fyrst fór allt í uppnám og okkur leist ekki vel á að bíða eftir rútunni úti í rigningu sem vel gæti breyst í hellidembu, þetta er nú einu sinni land öfganna.
Þegar við hugleiddum hins vegar aðstæður sáum við að í raun væri rigningin blessun þar sem hún bæri með sér svala og klifjaða bakpokaferðalanga þyrstir alltaf í svalann. Við ákváðum því að drífa okkur af stað og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að fá smá aukakælingu. Það reyndist síðan vera alveg dásamlegt að fá úðann og veðurguðirnir fengu plús í kladdann fyrir útspilið.
Á rútustöðinni fórum við að næsta ávaxtasala til að birgja okkur upp af appelsínum fyrir ferðina. Þar gaf maður sig á tal við okkur sem reyndist vera bílstjóri hraðvagnsins til Kottayam, en þangað var ferð okkar einmitt heitið. Þar sem við vorum snemma í því vorum við fyrsta fólkið inn í vagninn og gátum þar með valið bestu sætin fremst. Og við þurftum ekki að sitja út í rigningunni. Talandi um þægindi.
Úr sætum okkar horfðum við síðan beint upp á upplýsta Krists- og Maríumynd og um stýrið hafði bílstjórinn vafið talnabandi. Til að tryggja að við fengjum skilaboðin hafði Guð komið því þannig fyrir að þegar við fengum afganginn eftir miðakaupinn stóð á einum 10 rúpíu seðlinum Praise the Lord.
Á sjálfri ferðinni gerðist fátt markvert annað en það að við deildum jarðhnetum með sessunautum okkar, sætri fjölskyldu með tvo æðislega stráka, sem deildu þá með okkur ristuðum kjúklingabaunum, og svo skemmtum við okkur við að skrifa niður skilaboð til ökumanna á umferðaskiltum.
Þegar við loks komum á áfangastað fór bílstjórinn að eigin frumkvæði að leita að strætó sem kæmi okkur niður að ferjunni. Við þurftum því ekkert að hafa fyrir lífinu heldur vippuðum okkur úr rútu yfir í vagn og þaðan niður í ferju sem flutti okkur yfir the backwaters. Svona óumbeðna hjálp fáum við ekki oft tækifæri til að þiggja í Indlandi, en okkur þótti hún einhvern veginn sjálfsögð á þessum degi.
Frá ferjunni þurftum við að taka enn einn vagninn til að komast á lokaáfangastaðinn Alappuzha. Eitthvað vafðist það fyrir okkur að finna blessaðan vagninn og því áræddum við að spyrja næsta bílstjóra. Hann gat hins vegar lítið tjáð sig á ensku og við stóðum því svolítið ráðalaus og vissum ekki í hvorn fótinn átti að stíga. Þá hallaði einn ferþeganna sér út og spurði hvort við þurfum aðstoð. Nema hvað umræddur farþegi var nunna í fullum skrúða. Mér liggur við að segja að auðvitað var þetta nunna þar sem dagurinn var búinn að taka á sig þennan merka kristna blæ.
Nunnan reyndist tala góða ensku og var áhugasöm um okkur og hjálpleg þar að auki. Við fylgdum hennar leiðbeiningum og gengum út að næsta horni þar sem stoppistöðin var. Á sama tíma og okkur bar að renndi strætisvagninn upp að og við beint upp í, fullkomin tímasetning. Mér liggur við að segja að það hafi ekki komið á óvart, vegir Guðs voru orðnir ansi rannsakanlegir þennan páskadag hvað okkur viðkom.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli