miðvikudagur, 4. apríl 2007

Kathakali dansinn

Fórum að sjá stytta útgáfu af hinum sérkeralska Kathakali dansi. Dansinn á sér rætur til miðrar sautjándu aldar og fara þessar sýningar venjulega fram í hofum og byrja þá um níuleytið á kvöldin og standa fram á morgun. Til allrar hamingju var sýningin okkar ekki nema 90 mínútur, alveg mátuleg.

Dansinn gengur út á að miðla sögum guðanna og eru dansarar aðeins karlar. Sýningin byrjar á því að maður fylgist með dönsurunum mála sig og klæða sig í búninga. Mikið er lagt upp úr að gera dansarana sem guðlegasta í útliti og því er lögð áhersla á að stækka allt við þá. Það er gert með svakalegu magni af farða, skrautlegum og flóknum búningum og meira að segja svörtum pipar til að gera augun rauð.

Þvínæst eru grundvallaratriði dansins útskýrð fyrir áhorfendum og sýndar allsvakalegar augn- og andlitsvöðvaæfingar sem dansararnir þurfa að vera hæfir um að framkvæma. Ég hafði mest gaman af þeim hluta sýningarinnar. Geiflurnar sem þessir gaurar eru færir um að gera eru rosalegar. Þeir geta fært alla athyglina í staka vöðva andlitsins og stjórnað því á magnaðan hátt, sjón er sögu ríkari.

Dansararnir tala ekkert og því eru tónlist, dans, svipbrigði og fingramál notuð til tjáningar. Fingramálið er afar flókið og átti ég ekki séns í að fatta hvað væri á seyði meðan dansinn dunaði, til allrar hamingju fengum við ljósrit af sögunni til að átta okkur á þræðinum. Ég er feginn að hafa séð þennan fræga dans en undirstrika þó að ég gæti ekki hugsað mér að fara á tólf tíma alvörusjóv.

Myndir er að finna í Kodai-Kanal og Keralamyndaalbúminu.

Engin ummæli: