fimmtudagur, 5. apríl 2007

Frumskógarsafarí

Við vöknuðum í gærmorgun kl. 4:30 til að fara í svokallað Jungle Safari um Periyar Wildlife Sanctuary. Þjóðgarðurinn er 777 km² og er einn stærsti sinnar tegundar í Indlandi. Flestir sem heimsækja garðinn vonast eftir því að sjá glitta í tígrisdýr og hlébarða en síðast sást í tígrisdýr árið 2005, þau eru klók að halda sig frá alfaraleið túristanna.

Leiðsögumaðurinn kom að sækja okkur kl. 5:15 á ekta safaríjeppa og þrír Bandaríkjamenn bættust stuttu síðar í hópinn. Við þutum eftir holóttum veginum í gegnum lítil, sofandi þorp. Þegar við vorum komin inn fyrir hlið þjóðgarðsins tók leitin eftir villtum dýrum við. Mesta sportið var að standa uppi í bílnum því þakið var af. Þar sem þjóðgarðurinn er að hluta til í Western Ghats, nánar tiltekið í Kardimommuhlíðum, er mikið um skógivaxnar hlíðar og gróðursæla dali og náttúrufegurðin því mikil. Að fá að keyra um þjóðgarðinn við sólarupprás og sjá allt vakna til lífsins eru hrein forréttindi, hrein dásemd.

Af þeim skepnum garðsins sem við sáum ber helst að nefna risaíkorna með rauðan feld (sem eru merkilegt nokk jafnfimir í að stökkva milli greina og þeir litlu), vísundafjölskyldu og mjög svo forvitna kálfa þeirra, svartapa og ljónapa með gula hair-do og flugmaurabú hátt upp í laufkrónunum.

Áhugaverðast fannst okkur að finna risastóran fílaskít á götunni. Við eltum slóðina á jeppanum og leitin bar árangur. Fyrir neðan veginn í skógarþykkninu heyrðum við skrjáfið í einsömlum fíl, hann var í miðjum morgunmatnum. Við stukkum úr jeppanum og tókum að ryðja okkur leið gegnum kjarrið niður í mót, eins hratt og hljótt og mögulegt var. Þar fundum við fíl í felum innan um laufgaðar greinar og sáum ranann gráa þreifa fyrir sér eftir morgunmatnum. Fílar borða 250 kg af laufi á dag og drekka 250 lítra af vatni á dag. Þessi tiltekni var voðalega sætur svona nývaknaður.

Eftir morgunmat, sem samanstóð af iddly dosa, spældu eggi, ananasskífum og chai, fórum við í tveggja tíma trekk með leiðsögmanninum Balla. Hann sýndi okkur moldug tré sem fílar nudda sér upp við, tréð sem kanill er unninn úr og eitraðan og oddhvassan ávöxt sem svartapar borða og nota síðan sem hárgreiðu. Hann brenndi fyrir okkur trjábörk sem notaður er í reykelsisgerð og gaf okkur að smakka af sérkennilegum berjum sem líta út eins og bláber, eru þó ekkert nema steinninn og það litla ávaxtakjöt sem er bragðast eins og tamarínd.

Eftir suður-indverskan hádegismat fórum við í bátsferð um Periyar vatnið í árabát. Balla sá alfarið um árarnar svo það eina sem maður þurfti að gera var að horfa í kringum sig og reyna að höggva eftir öpum. Við sáum ekki marga slíka en við sáum lítinn, skærbláan kingfisher sem þaut eftir vatninu. Baldur lærði líka að flauta með laufi, okkur hinum til ómældrar ánægju.

Í jeppanum á leiðinni til baka fengum við að sjá þjóðgarðinn við sólsetur og ekki er hann síðri þá. Heim í hús vorum við komin upp úr hálfsjö og eftir verðskuldaða sturtu fórum við út að borða með hinum ferðalöngunum úr frumskógarferðinni.

Að vanda eru myndir að finna á netinu, athugið Kodai Kanal & Kerala albúmið ykkur til gamans.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Ásdís og Baldur. Nú erum við upp í sumarbústað í íslenskri náttúru. Það var voða gott að koma heim og ferðin gekk alveg eins og í sögu. Takk fyrir yndislegan tíma á Indlandi. Hlökkum til að hitta ykkur aftur.

Kærleikskveðja
Ingibjörg og Víðir

baldur sagði...

Takk fyrir hlýjar kveðjur frá svölu landi :o)

Við fáum nú bara smá heimþrá við að lesa um sumarbústaðaferðir og notalegheit á klakanum góða. Við fengum einmitt dágóðan skammt af heimþrá í íslenska sumarveðrinu í Kodai Kanal um daginn, og nú er svo komið að ef Ásdís heyrir geit jarma ímyndar hún sér að hún sé komin upp í sveitir Íslands innan um heilagar sauðkindur, hvað annað!

Namaskar frá Hindustan