sunnudagur, 15. apríl 2007

Sunnudagsmessan

Andrúmsloftið hér í Kochi, sem er mettað af kristni og kristnum, hefur augljóslega ratað ofan í lungu okkar og þaðan út til hjarta og heila. Og hvernig get ég verið svo viss um það? Sönnunin er augljós loks þegar maður rekur augun í hana og hún er þessi: í dag sóttum við kaþólska messu og laumuðum okkur ekki út eins og við gerðum í Róm sællra minninga, heldur sátum við andaktug allan tímann með eyrun sperrt.

Santa Cruz Basilica er mjög fallega innréttuð svo leiðast manni messur má alltaf virða fyrir sér altaristöfluna sem sýnir Krist með vængi eða höggva eftir V-inu á Síðustu kvöldmáltíðinni eftir da Vinci. Ég á samt erfitt að ímynda mér að einhverjum gæti leiðst í messu sem þessari þar sem poppuð lög með miklum country áhrifum eru spiluð á milli þess sem presturinn ávarpar söfnuðinn. Fyrst þegar tónlistin ómaði í hátölurunum hélt ég reyndar að einhver aumingjans sál hefði skellt vitlausum geisladisk í spilarann en þegar enginn gerði sig líklegan til að stöðva country poppið dró ég þá ályktun að svona væru messur kaþólikka í Kerala.

Að öllu gamni slepptu (sem er erfitt þegar maður minnist altarsdrengjanna að rogast með þungan stól fram og til baka í miðri messu) þá kom ýmislegt áhugavert fram í máli prestsins. Það sem helst sat eftir var tal hans um frið á jörð sem hann sagði aldrei mundu komast á nema hver og einn gerði sitt ýtrasta til að öðlast frið í eigin lífi. Þá minnti hann söfnuðinn á óendanlega miskunn Drottins og mikilvægi þess að dvelja ekki of lengi við syndir okkar og samviskubit heldur minnast frekar miskunnar Guðs og fyrirgefningar.

Að messu lokinni gengum við hnarreist út, stolt úr hófi fram af afrekinu. Nú er einu atriðinu færra á stefnuskrá okkar. Að mæta í kaþólska messu - tékk.

Engin ummæli: