mánudagur, 16. apríl 2007

Kerala samantekt

Dvöl okkar hér í Keralafylki lýkur senn þar sem við fljúgum til Delhi í fyrramálið. Það er því við hæfi að gefa stutt yfirlit af dvölinni.

Þegar við komum yfir landamærin frá Tamil Nadu til Kumily í Kerala fannst okkur sem við værum komin til annars lands og að hér byggi allt annað fólk. Það eru mýmörg dæmi um yndislegt fólk sem við höfum rekist á t.d. Fartesh hinn vandvirki ferðafrömuður, vinur okkar á Chrissy's veitingastaðnum sem var hvergi smeykur við að tjá lífsgleði sína og svo var það strákurinn á netkaffinu sem veitti okkur heilmikla og skemmtilega leiðsögn og fræðslu um Jesús og bauð okkur að auki búa frítt heima hjá sér í næstu heimsókn okkar.

Í Kerala tókum við líka eftir að ýmsum fleiru sem var öðruvísi en það sem við höfðum séð annarsstaðar í Indlandi. Það heyrir t.d. til undantekninga að sjá konu í sarí og ef þær eru í sarí þá eru þær líklega indverskir túristar. Hér klæðast konur einföldum kjólum sem þær steypa yfir höfuðið á sér og líta þeir út fyrir að vera miklum mun þægilegri en sarí og örugglega þúsund sinnum fljótlegri leið til að klæða sig í og úr.

Miðlæg hitaveita er í bænum, ég vissi ekki að Indverjar ættu þetta til. Fyrir vikið höfum við geta gengið í heita vatnið hvenær sem er dagsins, alltaf. Vá, þvílíkur lúxus!

Hér eru líka skemmtileg áhrif frá evrópsku hefðarfólki því enginn telst maður með mönnum nema hann sé með almennilega regnhlíf í hlutverki sólhlífar. Kaffiflóran hér um slóðir er líka fjölbreyttari og bragðbetri en á öðrum stöðum. Í Kumily við Kardimommuhæðir fengum við yndislegt kardimommukaffi, sérdeilis bragðgott. Í Kochi höfum við fengið æðislegt klakakaffi, kaffi latta og mjög gott pressukaffi í Bodum könnu. Kardimommulyktin er allsráðandi þegar maður gengur um enda er Kumily í Kardimommuhæðum svo þetta er einkar viðeigandi.

Í Kerala sáum við Kathakali dansinn, fórum í frumskógarsafarí, prófuðum g-strengsbleyjur og fengum nudd, skoðuðum kryddbýli og teverksmiðju, upplifðum rosalegan páskadag, sigldum um á húsbáti með tvo þjóna, kynntumst Þrumu og fjölmörgum systrum hennar, mættum í kaþólska messu og síðast en ekki síðst héngum við á yndislegu kaffihúsi. Takk fyrir okkur ljúfa Kerala!

Engin ummæli: