Við komum til Jaipur um kvöldmatarleytið í dag eftir u.þ.b. átta tíma rútuferð. Átta tímar, segir hún, varla svo slæmt. Ó, jú, alveg voðalegt skal ég segja ykkur.
Rútan sem um ræðir átti að vera einhvers konar lúxus að því leyti að plássið sem hver fær er meira en gengur og gerist í öðrum rútum. Hins vegar ætluðust þeir til að við sætum með allan okkar farangur milli lappanna alla ferðina þar sem við neituðum að borga uppdiktað aukagjald (sem við höfðum verið vöruð við að þeir myndu reyna). Baldur sýndi af sér áður óþekkta ákveðni þegar þarna var komið sögu og eftir það var málið dautt, töskurnar fengu að vera í friði.
Ungt, bandarískt par sem sat fyrir framan okkur var mun linara og hlýddu öllu því sem þeim var sagt að gera. Við urðum að halda fyrir þau smá fyrirlestur um hvernig hlutirnir gengju fyrir sig hér í Indlandi, t.d. að ef maður léti þá velta yfir sig hrapaði maður í virðingastiganum.
Versta við rútuferðina voru opnu gluggarnir, þannig komst allt rykið inn og upp í augu og kok. Þá gátu farþegarnir sem voru ofan á þaki rútunnar einnig verið til armæðu, alltaf hellandi vatni fram af þakinu svo maður varð að hafa snör handtök og loka glugganum sínum til að fá ekki væna lúku af votum vökva í fangið. Ekki bætti úr skák að við vorum sólarmegin í lífinu í bókstaflegum skilningi og vorum við það að sjóða. Að endingu var ferðin tvisvar sinnum lengri en okkur hafði verið sagt og sætið mitt var fast í 130 gráðu halla og vildi ekki ofar. Ég varð mjög þreytt í bakinu, mjög.
Við komum til Jaipur eins og illa barðir hundar, skítug, rykug og með bauga niður að hnjám. Ég held við látum þetta gott heita af rútum í Rajasthan í bili. Héðan í frá beini ég mínum viðskiptum að loftkældum lestum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli