fimmtudagur, 19. apríl 2007

Taj Mahal

Mættum klukkan sex í morgun til að berja þessa merku byggingu augum í morgunsólinni. Þetta var reyndar ekki fyrsta ferðin okkar því í gær, þegar við komum hingað til Agra, fréttum við að það væri ókeypis inn á Taj Mahal svæðið í tilefni af svokölluðum World Heritage Day. Afar heppilegt þar sem venjulega kostar fáránlegar 750 rúpíur fyrir erlenda ferðamenn en 20 fyrir Indverja, talandi um þjóðrembur.

Við gátum því bæði fylgst með sólsetri og sólarupprás við Taj Mahal. Í fyrra skiptið vorum við eins og rónar til fara (þökk sé rykugri rútuferð) innan um heimamenn sem allir voru í sínu fínasta pússi. Í morgun vorum við landi og þjóð til meiri sóma, farin úr rónagöllunum og komin í settlegri flíkur. Í bæði skiptin báðu indverskir túristar okkur að sitja fyrir á myndum með sér svo ekki er hægt að segja að marktæk fylgni sé á milli snyrtimennsku og vinsælda meðal heimamanna.

Hvað er svona merkilegt við dögun og og sólarlag við Taj Mahal? Á þessum tímum dagsins skín sólin á spegla sem greiptir eru í bygginguna og samspili þeirra við breytilegan lit sólargeislanna ætlað að tákna nærveru Allah, að mínu mati ákaflega ljóðrænt og fallegt markmið. Byggingunni og umhverfi hennar er í heild sinni er ætlað að tákna Guðs ríki á jörðu. Að margra mati var hátindi mógúlsks arkitektúrs náð þarna og eru til fjölmargar bækur um fullkomnun hönnunarinnar. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja hana fegurstu byggingu heims og þeirra dramatískastur var, að mínu mati, skáldið Rabindranath Tagore sem lýsti Taj Mahal með eftirfarandi orðum: Tear on the face of eternity.

Taj Mahal er risastórt grafhýsi sem mógúll nokkur, Shah Jahan, reisti fyrir uppáhalds konuna sína eftir að hún lést við fæðingu á fjórtánda barni þeirra. Byggingin hefur því af mörgum verið kölluð óður til ástarinnar. Þegar karlinn dó svo mörgum árum síðar flutti hann aftur til uppáhaldskonunnar sinnar í þetta líka glæsilega hús.

Persónulega finnst mér staðurinn ofmetinn og skil ekki fólk sem ferðast yfir hálfan hnöttinn til þess eins að sjá þessa byggingu. Ég sé að sjálfsögðu ekki eftir heimsókninni en ef þetta hefði verið eina erindi mitt til Indlands þá hefði heimildarmynd verið skynsamlegri.

Engin ummæli: