Við sögðum bless við risastórborgina Delhi í dag og héldum með rútu til Agra. Í upphafi ferðar virtist sem rútuferðin þægilega milli Kumily og Alappuzha myndi endurtaka sig þar sem við vorum fyrst upp í rútuna í þetta sinna eins og þá og tryggðum okkur framsætið aftur. Í stað myndar af Jesú með foreldrum sínum var mynd af Ganesh sæta með mömmu sinni og pabba, í sömu uppstillingu og á Kristsmyndinni. Fljótlega kom þó í ljós að við höfðum lent á ólíkt klikkaðri bílstjóra sem hafði að því er virtist yndi af því að bólsótast og blóta og keyra sem óður maður.
Eitt af því sem Delhi og svæðin þar í kring þurfa að kljást við er sandfok enda er Rajasthan algjört eyðimerkurríki og nóg er af sandinum þar fyrir vindguðinn að þyrla upp. Á vegum úti eru því margir útbúnir klútum og slæðum sem þeir hafa bundið fyrir vitin. Við lentum sem betur fer lítið í slíkum sandstormum á leiðinni en þó komu kaflar þar sem varla sást í næstu bíla fyrir sandfoki og þá hefði komið sér vel að vefja sig klæðum.
Þar sem ég get ómögulega lesið meðan ég ferðast um á vegum úti dundaði ég mér við að horfa út um gluggann á Indland þjóta hjá. Eitt af því sem ég veitti athygli þegar við keyrðum á milli Delhi og Agra var hve eyðimerkurlegra landslagið var því nær sem dró á Agra. Þá varð líka meira um skilti og skilaboð á hindi og konum með litríkar slæður um höfuð sér fór fjölgandi.
Ef mér fór að leiðast lífið fyrir utan rútuna gat ég alltaf fylgst með sætri fjölskyldu sem sat við hlið okkar með tvö gullfalleg börn og tvo karlmenn. Við Baldur höfðum gaman af því að velta fyrir okkur hvor þeirra væri eiginmaðurinn, báðir virtust nefnilega taka þátt í barnauppeldinu af sama kappi. Við bollalögðum fram og til baka en komumst að engri niðurstöðu. Í hvert sinn sem þær samræður runnu út í sandinn notaði ég tækifærið og sendi bílstjóranum ófáa góða strauma, ekki veitti honum af.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli