Fall er fararheill segir máltækið og á það sannarlega við um heimsókn okkar til Dehli, byrjaði harkalega en mildaðist þegar á leið. Eftir ljúfa flugferð með Air Sahara frá Kochi stigum við ansi nálægt uppglentum dýraboga lögðum af slyngum túristaféfletti.
Á lestarstöðinni kom hann aðvífandi og sagðist vera starfsmaður lestastöðvarinnar og ætlaði að vera okkur voðalega hjálplegur. Með miklum málalengingum um svindlara lagði hann til að við kæmum okkur á upplýsingamiðstöð fyrir erlenda ferðamenn og þegar við sýndum engin merki um hlýðni þóttist hann verða svakasár.
Ég treysti manninum að sjálfsögðu ekki brot úr mínútu þar sem ég fyllist alltaf grunsemdum þegar ókunnugur Indverji býður mér hjálp sína af fyrra bragði (sorglegt en satt), sérstaklega í borgunum. Grunsemdirnar reyndust á rökum reistar og eftir að hafa losað okkur við kauða og hátt á hundrað hans líka fundum við okkur ódýrt hótel í grennd við lestastöðina, komum okkur fyrir og plönuðum daginn.
Til þess að skoða þá staði sem okkur langaði að sjá leigðum við okkur einkabílstjóra með loftkældan bíl, þýðir ekkert annað í 43°C! Bílstjórinn var indæll ungur maður að nafni Dhivendra sem skutlaði okkur frá einum stað til annars og beið meðan við skoðuðum.
Á þessum eldheita Dehlidegi skoðuðum við Rauðavirki (Red Fort) með grænum grundum og fögru flúri, gengum um minnisvarða Gandhis þar sem ég komst í heldur betur í tæri við kóbraslöngu. Þvínæst lá leið okkar að India Gate, minnisvarða um fallna hermenn, þar sem við börðumst við sniffþyrst barn á sama tíma og við nutum þess að vera túristar, spásseruðum svo í rólegheitum um Lodi garðinn sem kom skemmtilega á óvart með trimmandi miðstéttarfólki á þartilgerðum trimmslóðum.
Túrinn endaði svo á heldur meiri hasarnótum í ólgandi hafi kvöldtraffíkur á Main Bazaar: fólk, beljur (ein reyndi meira að segja að stanga mig!), mótorhjól og léttivagnar bæði fótstignir og vélknúnir. Eftir ágætan kvöldverð á Hare Krishna veitingahúsi tókum við fótstiginn léttivagn heim úrvinda og ánægð með dagsverkið.
Eftir þessa skemmtilegu skoðunarferð stóð helst upp úr hvað Dehli hafði tekist að koma okkur rækilega á óvart með fegurð sinni og fjölmörgum grænum svæðum. Vissulega voru væntingarnar litlar og loftkældur bíllinn hjálpaði eitthvað, en samt... Ég er pottþéttur á að ég myndi ekki vilja dvelja lengi í þessari borg en hún var sannarlega heimsóknarinnar virði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli