Jaipur byrjar vel! Erum búin að tékka okkur inn á alvöru lúxushótel, í fyrsta sinn í allri ferðinni! Hótelið heitir Arya Niwas og er hér er allt til alls: frábær sturta, hrein handklæði að vild, hreint lín, loftkæling, tölvustýrt öryggishólf og síðast en ekki síðst besti matur Indlands fram til þessa (lítil olía og hófleg kryddnotkun). Ef við svo fáum leið á að hanga inni á frábæra herberginu okkar förum við bara niður í flottu setustofuna, fallega garðinn eða skemmtilegu bókabúðina hérna niðri. Dæs, þvílíkur lúxus.
Þrátt fyrir allan lúxusinn náðum við að rífa okkur út í stutta skoðunarferð um þann hluta Jaipur sem kallaður er bleika borgin (Pink City). Bleika borgin ber þetta nafn þar sem húsin eru öll bleikmáluð. Í Rajastan táknar bleiki liturinn gestrisni og var borgin upphaflega gul en fékk sína fyrstu bleiku umferð fyrir heimsókn Alberts Bretaprins árið 1876. Þar sem liturinn er nú orðinn vörumerki borgarinnar er honum haldið við og var síðasta stórmálun árið 2000 þegar Bill Clinton mætti á svæðið.
Við héldum okkur á svæði sem kallað er Bapu Bazaar. Þar úði og grúði af fólki og kaupmenn reyndu eftir megni að toga okkur inn í búðirnar til sín með hinni vinsælu setningu: Looking is free. Meðal þess sem í boði var voru Rajastan strengjabrúður, tabla trommur, alls kyns bómullarföt og að sjálfsögðu skór úr úlfaldaleðri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli