sunnudagur, 22. apríl 2007

Þvottadagur

Í dag var hinn mesti rólegaheitadagur. Að hluta til skrifaðist það á þreytuna miklu eftir ferðalagið hingað norður eftir og tvær erfiðar rútuferðir í röð. Að öðrum hluta til skrifaðist það á magaveiki Baldurs. Síðast en ekki síst vorum við tilneydd til að taka því rólega þar sem við sendum allar okkar flíkur í þvott og áttum bara náttföt og slíkar skjólur til að vefja utan um okkur og þannig til fara hættum við okkur ekki út fyrir hótellóðina.

Það var sannarlega ekki vanþörf á að þvö fötin okkar. Allar okkar flíkur voru skítugar og margnotaðar, og þá er ég að taka um skítugar á borð við flíkur sem hafa verið utan á barnskroppi sem hefur velt sér upp úr leðju og drullu. Svolitlar ýkjur að sjálfsögðu en rykugar voru flíkurnar og skítugar.

Rólegheitadagar eru að sjálfsögðu kjörnir til að liggja yfir bókum svo við gerðum það. Mér til dundurs las ég í Freakonimics og Baldur kláraði Book of Transformation eftir Dalai Lama. Til marks um hve rólegur dagurinn var finnst mér vert að minnast á ávaxtasalatið sem við fengum okkur um eftirmiðdaginn, með fersku papaya, mangó, vatnsmelónu, banana, ananas og vínberjum. Salatið var mikill hápunktur dagsins.

Eftir kvöldmat grömsuðum við aðeins í bókabúð hótelsins og náðum í þvottinn okkar. Hann kom í fangið okkar angandi af hreinleika og nýpressaður í þokkabót. Til að vera örugglega í takt við daginn ætlum við núna hvað úr hverju í háttinn.

Engin ummæli: