Fyrsta daginn okkar í Kodai stóð yfir bandh og allt því lokað. Við erum að verða ansi vön þessu bandh fyrirbæri og í stað þess að sitja inni á hótelherbergi og láta okkur leiðast, notuðum við tækifærið og gengum hringinn í kringum vatnið í hjarta Kodai. Þetta eru einhverjir sex kílómetrar og á leiðinni sáum við marga sem voru að veiða á stöng og mörg húsanna voru mjög falleg, steinhlaðin eins og í Evrópu með fallegum görðum og leirplötuþaki.
Evrópsku áhrifin skrifast á Breta sem voru fyrstir til að koma hingað og byggja sér bústað fjarri hitanum og rakanum. Það skrifast kannski líka á þessi evrópsku áhrif að annar hver sölubás selur hjemmelavet súkkulaði sem við pössuðum okkur á að prufa vel og vandlega.
Þar sem Kodai er svalur staður með meiru er hann vinsæll meðal útivistafólks. Á sunnudaginn fórum við í átta tíma trekk um skógivaxnar hæðirnar kringum Kodai Kanal. Leiðsögumaðurinn okkar, Murugan, leiddi okkur út úr bænum og áður en við vissum af vorum við komin út í þverhníptar, grænar hlíðar með útsýni yfir hæðir og hóla. Þar sem það var skýjað horfðum við úr hlíðunum beint ofan á hvít og dúnamjúk skýin, geggjað.
Murugan sýndi okkur eucalyptus lauf og reif heilan runna fyrir okkur sem við stungum í bakpokann. Fyrirmælin voru að setja laufin í heitt fötubað og baða sig upp úr því fyrir “fresh body”. Hann sýndi okkur líka lemongrass og gaf okkur að hnusa, það var eins og að halda á skál af skornum sítrónum. Í hvert sinn sem hann tók að hrópa come back og come fast vissum við að í nágrenninu væri villivísundur og tókum því til fótanna niður hlíðina.
Við gengum um skóga sem notaðir eru í eldspítur og þar fann Murugan brodd af broddgelti sem ég stakk í hárið. Við heimsóttum Rainbow Falls og Tiger Caves, Dolphin Nose og Echo Rock og síðasta stopp var við útsýnisstaðinn Green View Valley sem gengur undir nafninu Suicide Point meðal heimamanna. Um kvöldið fórum við síðan í eucalyptus bað að góðra manna ráðum og fengum frískan líkama.
Í dag tókum við því rólega eftir göngu gærdagsins enda harðsperrur farnar að segja til sín. Við gerðum reyndar ashtanga yoga inn á herbergi til að vera yfirhöfuð fær um að ganga eitthvað í dag. Þegar við fórum loks út keyptum við smá súkkulaði eftir vigt, kíktum í Eco Nuts þar sem við fylltum poka af möndlum og hnetum, skoðuðum í leikfangaverslun sem selur varning frá heimamönnum og slökuðum á í German bakery þar sem allir Ísraelarnir safnast saman, eins kaldhæðið og það er. Þar sem við getum ekki tekið fersk eucalyptus lauf með okkur í ferðina keyptum við einn minjagrip frá Kodai: eucalyptus olíu.
Fleiri myndir eru komnar á netið í Kodai Kanal albúminu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli