þriðjudagur, 3. apríl 2007

Kumily í Kerala

Þá erum við komin til Kumily í Kerala fylki, þar sem vötn og grænka og notalegheit eru orð dagsins. Kerala liggur upp við Arabíuhaf og hefur því líka yfir langri strandleggju að ráða. Innan um gróðursælt landslagið má síðan sjá kirkjur kaþólikka sem eru fleiri hér en annarsstaðar í Indlandi. Slagorð Keralabúa er enda: Kerala – God’s own country.

Í Kerala eru meðallaunin lægri en annarsstaðar í Indlandi en mun færri eru þó við fátæktarmörk þar sem jöfnuðurinn er meiri hér en annarsstaðar. Hér er til að mynda nær 100% læsi og Keralabúar stæra sig af mennta- og heilbrigðiskerfi sínu. Þá er fylkið þekkt fyrir róttækan hugsunarhátt. Kerala var til að mynda fyrsta ríkið í Indlandi til að kjósa kommúníska stjórn árið 1957 og árið 2003 voru reykingar á opinberum stöðum bannaðar. Go Kerala!

Við komum hingað með leigubíl frá Kodai Kanal. Leigubíllinn var gamall en hvítur, snyrtilegur Ambassador með slitnum sætum sem óþægilegt var að sitja í. Þegar við komum að fylkismörkum Tamil Nadu og Kerala neitaði bílstjórinn að fara lengra og fullyrti að það yrði bölvað vesen fyrir sig þar sem Kerala væri annað land en Tamil Nadu. Kumily er sem betur fer á mörkunum svo við gátum gengið yfir í bæinn.

Við vorum varla búin að stíga framhjá lágreistri landamærastönginni og inn í Kerala þegar ungur maður, Fartesh, kom upp að okkur og bauð okkur gistingu í heimahúsi sínu Mundakal Cottage. Við kíktum á aðstæður og urðum mjög hrifin. Við fáum herbergi með sérinngangi, sérbaðherbergi með nóg af heitu vatni, sjónvarpi og svölum, kaffi og te, allt fyrir 200 rúpíur nóttin. Í þokkabót er allt tandurhreint og snyrtilegt og okkur líður mun betur hér en á hótelherberginu í Kodai sem var dimmt og loftlaust.

Nú erum við að plana næstu daga í Kumily en hingað kemur fólk til að heimsækja Periyar Wildlife Sanctuary sem hefur yfir að skarta fílum og tígrisdýrum, dádýrum, vísundum og öpum í þúsundatali.

Engin ummæli: