föstudagur, 13. apríl 2007

Lukkudagur

Eins hamingjusöm og við höfum verið í litla bænum Kochi ákváðum við í dag að hætta okkur út til stórbæjarins Ernakulam sem er á meginlandinu. Þar sem föstudagurinn þrettándi stóð yfir fannst mér ekki annað hægt en að gera eitthvað aðeins kræfara en sitja á kaffihúsinu og sötra límónaði með ayurvedísku sírópi. Í mínum huga er föstudagurinn þrettándi nefnilega tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt, hálfgerður lukkudagur ef svo má segja.

Svo við ákváðum að kíka í borgarferð. Til að komast til Ernakulam þurftum við að ganga að ferjuhöfninni hér í Fort Cochin og á leiðinni þangað sáum við hin frægu kínversku fiskinet sem fiskimenn hér á bæ nota. Netin eru öðruvísi en allt sem ég hef séð í þessum bransa en skemmtileg eru þau. Ég hætti mér ekki útí að lýsa þeim en bendi ykkur þess í stað að kíkja á myndirnar sem við tókum. Það er gaman að geta þess að þessi blessuðu net eru helsta myndefni ferðamanna í Kochi og oft helsta ástæðan fyrir komunni hingað.

Í Ernakulam höfðum við hugsað okkur að gera allt sem tilheyrir borgarferð: kíkja í bíó, kaupa geisla- og mynddiska, skoða í bókabúðir, borða á veitingastöðum og bæta á okkur í íshöllum bæjarins. Við reyndum fyrst við bíóhúsið en urðum fyrir sárum vonbrigðum þegar við sáum að aðeins var verið að sýna Mel Gibson myndina Apocalypto. Hana sáum við nefnilega hjá Geira í Chennai svo við urðum að afskrifa bíóferðina.

Næst á dagskrá var að þefa uppi bókabúð sem við og gerðum. Í þeim mikla hita og raka sem hér er landlægur entumst við frekar stutt og flúðum fljótlega yfir í Music World sem státaði af loftkælingu. Frá Music World fórum við yfir í tónlistarverslunina Planet M sem státaði yfir enn betri loftkælingu. Þar keyptum við safnplötu á malayalam, en á henni syngur m.a. söngvari sem minnir okkur svo á Pál Óskar. Við keyptum líka Noru Jones diskinn Not too late, diskinn An Other Cup frá Yusuf Islam, betur þekktur sem Cat Stevens, og síðast en ekki síst diskinn Chillout heaven frá Friðriki Karlssyni :o)

Bæjarferðina enduðum við síðan á Subway þar sem við fengum okkur veggie delight með helling af sætu, amerísku sinnepi. Sem sagt vel heppnuð bæjarferð í alla staði. Þrátt fyrir alla indversku umferðina, með sínum indversku autobílstjórum og vespum, sluppum við ómeidd og sannar það eitt og sér að föstudagurinn þrettándi er hinn mesti lukkudagur.

Engin ummæli: