miðvikudagur, 4. september 2013

Tebollur

Tebollur

Ég bakaði tebollur í fyrsta skipti um daginn, og það var auðvelt. Það var líka gaman en það er af því mér finnst alltaf gaman að baka. Það er líka tiltölulega fljótlegt að henda í þessa uppskrift, mesta vesenið er að nudda smjörið inn í hveitið. Pínu messí en maður lætur sig hafa 'ða.

Þessi uppskrift kemur frá Rögnu sem heldur úti síðunni ragna.is.

HVAÐ
3,5 dl hveiti
1,5 tsk lyftiduft
3/4 dl sykur
100 gr smjör
1,5 tsk kardimommudropar
1 egg
1 dl mjólk
1 dl rúsínur eða grófsaxað suðusúkkulaði (eða 1/2 dl af hvoru)

HVERNIG
1. Hitið ofninn upp í 180°C.
2. Setjið öll þurrefnin í skál.
3. Skerið smjörið í bita og hendið út í þurrefnin. Brettið upp ermar, we're going in! Myljið smjörið í hveitiblönduna með berum höndum. Markmiðið er að nudda smjörinu jafnt inn í allt hveitið og til að ná því er best að nudda lófunum saman. Við viljum að blandan líti út eins og mulið kex áður en við höldum áfram.
4. Í glas eða skál hrærið saman eggi, mjólk og kardimommudropum. Hellið út á deigið og hrærið þar til eggja-mjólkurblandan hefur gengið saman við restina. Blandan er þykk og jafnvel ójöfn, en það jafnar sig allt út í ofninum, auk þess sem það hjálpar okkur að móta kúlur úr deiginu sem gefa okkur hærri og fallegri tebollur, í stað útflattra og breiðra.
5. Hrærið út í rúsínur eða súkkulaði. (Ég skipti deiginu í tvennt og setti rúsínur í annan og súkkulaði í hinn. Þar sem ég er ekki mikil rúsína þá kom mér það á óvart að mér fundust bollurnar með rúsínum betri en þær  með súkkulaðinu)
6. Leggið bökunarpappír á ofnplötu. Búið til kúlur á stærð við tennisbolta eða mandarínur og raðið á plötuna. Hafið gott bil á milli því bollurnar renna út til hliðanna í ofninum.
7. Inní miðjan ofn í 15-20 mín. (Eftir 20 mín setti ég ofninn á 200 til að skerpa aðeins á litnum og var umbunað með gullnum tebollum).

Og þá er bara að hella sér upp á te, því að Íslendingar borða bara tebollur með tebollanum...

Tebollur
 
Tebollur

Engin ummæli: