föstudagur, 6. september 2013

Ítalskir pizzasnúðar

Pizzasnúðar
 
Föstudagsuppskriftin er ekki af verri endanum: Ítalskir pizzasnúðar!

Þeir eru krönsí að utan en dúnamjúkir inní, þeir eru djúsí, soldið spæsí og svakalega ljúffengir.

Hér kemur full uppskrift en sjálf gerði ég aðeins hálfa uppskrift og uppskar 30 snúða. Þeir hurfu á augabragði! Full uppskrift, aftur á móti, gefur svona 50-60 snúða. Það er vert að minnast á að ég notaði fulla uppskrift að sósunni og notaði ábyggilega 3/4 af henni, því ég vil hafa snúðana djúsí. Svo það gæti verið ráð að gera eina og hálfa uppskrift að sósu ef stefnan er tekin á fulla uppskrift.
 
HVAÐ
Deigið:
5 tsk þurrger eða 50 g pressuger
3 dl mjólk
3 dl heitt vatn
1 tsk salt
1 msk sykur
2 msk ólívuolía
12 dl hveiti
 
Sósan:
1 dós niðursoðnir tómatar, hakkaðir
2 msk chilisósa (hef iðulega notað tabasco sósu)
3 msk tómatsósa
1 msk matarolía
2-3 msk óreganó
1 tsk salt
2 tsk hvítlauksduft
2 tsk sykur
Ofaná:  rifinn ostur (ef vill)
 
HVERNIG
1. Byrjið á sósunni svo hún nái að kólna. Blandið öllu saman í pott og sjóðið við vægan hita í u.þ.b. 20 mín. eða þar til fyllingin hefur þykknað nokkuð. Kælið fyllinguna í vatnsbaði.
2. Deigið: Hellið saman vatni og mjólk í pott og hitið í 37°C.
3. Myljið gerið út í stóra og góða skál og hellið vökvanum útí. Hrærið gerinu vel saman við þangað til það hefur allt leyst upp.
4. Bætið sykri, salti og olíu út í ásamt hluta af hveitinu eða þar til blandan verður mjög þykkur grautur.
5. Stráið hveiti yfir og látið lyfta sér í 30-40 mín. Breiðið gjarnan klút yfir.
6. Takið deigið og hnoðið það í létt deig. Skiptið því í tvo hluta og fletjið hvorn fyrir sig. Rúllið því út í 50 sm á lengd og restinni út á breiddina.
7. Smyrjið sósunni yfir útflatt deigið. Ef þið viljið ost, rífið þá smá niður og dreifið yfir.
8. Rúllið upp. Skerið u.þ.b. 2 cm þykka snúða og raðið þeim á plötu klædda bökunarpappír.
9. Látið lyfta sér í 20-30 mín.
11. Hitið ofninn í 200°C.
10. Penslið snúðana með olíu og bakið í miðjum ofni í u.þ.b. 20 mín.

Þessir snúðar eru tilvaldir með kjarngóðri súpu og grænu salati.
 
Pizzasnúðar
 
Pizzasnúðar
 
Pizzasnúðar

Engin ummæli: