Ekki dugði sturta gærdagsins til að lækna skellinn svo um hádegi var ég sendur á vinnubílnum upp á Frederiksberg Hospital. Ég hafði nefnilega verið með stöðugan hausverk eftir fallið auk þess sem ég var eitthvað hálfaumur í öxlinni, svosum ekki að undra.
Allt tekur sinn tíma á svona stöðum og beið ég á þriðja tíma eftir kalli doktorsins. Þegar röðin kom að mér var ég tékkaður hátt og lágt af hjúkrunarfræðingi og svo kom læknirinn. Eðlilega vildi hann fá að vita um hvað málið snerist og gaf ég honum dönsku útgáfuna af færslu gærdagsins.
Ég sá strax að þarna var húmoristi á ferðinni. Þegar kom að gleraugna- og derhúfuhlutanum hló hann helling og sagði með danskri íróníu að ég hafi nú verið heppinn þar: Hvað segirðu gleraugun og derhúfan? Hvar lentu þau? Já það var nú heppilegt að ekkert kom fyrir gleraugun. Gætum við farið yfir þetta aftur? Þú dast á andlitið, já, og gleraugun og húfan urðu eftir í loftinu. Komu þau niður? Já það var nú heppilegt.
Eitthvað í þessa veruna voru viðbrögð hins flippaða læknis. Læknaskýrsluna endaði hann svo með þessum orðum: Briller og kasket ryger af ham, men der sker intet med disse.
Ef áhyggjufullir lesendur vilja vita hvað kom fyrir mig og hafa fengið nóg af einkahúmor mínum og doksa þá er allt í lagi með mig. Ég fékk vægan heilahristing og afar netta tognun í öxl og háls. Ekkert til að hafa áhyggjur af og ekkert sem tefur mig frá daglegum störfum hvort heldur sem þau tengjast hekki eða lokaverkefni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli