Já, hugsið ykkur bara! Það er komið út sjálfstætt framhald hinnar frábæru og ofurvinsælu færslu Vinnudýr. Sú gamla var góð en sú nýja er jafnvel betri. Meiri hasar, fleiri brandarar og síðast en ekki síst, betri tónlist.
Hér í Kaupmannahöfn hefur verið föstudagur í allan dag og átti það líka við um vinnustaðinn KTK. Í tilefni af því heimsóttum ég og samstarfsmenn mínir froska. Ekki þessa þrjá, sem við þekkjum öll, heldur fjóra sem ég hafði ekki hitt áður.
Að undanförnu hef ég klippt hekk sem myndar völundarhús og í dag vann ég að því að safna afklippunum saman. Útundan mér tek ég eftir hreyfingu og augu mín leita ósjálfrátt að orsökinni. Blasti þá við mér lítið dýr sem ég í fyrstu hélt að væri fugl sem ég hefði keyrt yfir með sláttuvél en til allrar hamingju reyndist þetta vera afar gáfulegur froskur.
Ég tók hann upp og rétti samstarfskonu minni hann yfir hekkið svo hún gæti plantað honum í öruggara blómabeði. Svona froskakríli eru skringilega handsterk. Litlu krumlurnar taka þéttingsfast um puttana á manni. Ég og Svíinn, sem vinnur líka með mér, fundum þrjá í viðbót. Einn af þeim var nokkru stærri en hinir og var það kvenfroskur, hún pissaði á mig. Sérdeilis dannað.
Ekki er nein tjörn í þessum garði en í 0,5-1 km fjarlægð er Valbyparken og þar eru tjarnir. Sennilegt er að þessi fríði flokkur hafi ferðast þaðan til að finna góðan stað til að grafa sig ofan í jörðina og fara í vetrardvala. Nánari upplýsingar um svona töffara eru hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli