Góðar bókmenntir hafa margt til brunns að bera og finnst mér viðeigandi að tala um brunn-bókmenntir í því samhengi. Maður nær ekki öllu sem slíkar bókmenntir hafa upp á að bjóða í einni lesningu svo þær ber að lesa aftur.
Sagan af Pí er afspyrnugott dæmi af brunn-bókmenntum. Þess vegna stend ég mig að því þessa dagana að lesa hana í annað sinn. Og finnst sú upplifun ekkert síðri en þegar ég las hana fyrst, ég hlæ aftur að sömu fyndnu atvikunum og sný andlitinu upp í skrúfu þegar kemur að lýsingum á fiskverkun.
Í þokkabót finnst mér skemmtilegur andlegur undirbúningur fólginn í því að lesa um lífið í Suður Indlandi. Pí elst upp í Pondicherry sem er nokkurn veginn næsti bær við Bangalore og Chennai. Þess ber þó að geta að líklegast hefur næsti bær ekki sömu merkingu í hugum Íslendinga og Indverja, ég held það hafi eitthvað með vegalengdir að gera.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli