Undanfarna daga hef ég ásamt vinnuteymi mínu endað daginn á því að njóta þess sem Danmörk hefur upp á að bjóða í ágústmánuði, brómber og plómur. Víða svigna runnar og tré undan þessum kræsingum sem eru svo vel þroskaðar að varla þarf að hreyfa við þeim, þá detta þær í lófa manns.
Í dag lokkuðum við svo Ásdísi og samstarfskonu hennar með á plómuhlaðborð. Eftir laumulegan akstur eftir þröngum göngustígum komum við að röð plómutrjáa og réðumst á tvö fyrstu. Annað tré bar rauða ávexti en hitt gula og báðar tegundir voru sérsaltaðar því trén standa alveg upp við sjóinn.
Þarna stóðum við svo fimm og fylltum maga okkar af nettum og ótrúlega góðum plómum þegar samstarfskona Ásdísar segir: Minnið mig á að taka poka næst. Hin framsýna kærasta mín var nú ekki að bíða þartil næst heldur beint í bílinn og út aftur með poka, svo nú eigum við nóg til helgarinnar. Namminamm!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli