Í nótt rigndi mikið og var Jordpladsen eitt risastórt forarsvað. Jordpladsen er staður í Valbyparken samsvarandi við Leirdalinn í Kópavogi. Þangað fara bæjarstarfsmenn með afköst dagsins og úr er unnin næringarrík mold.
Hekkmorðingjar eru þar engin undantekning en að þessu sinni flutti ég afköst gærdagsins ásamt sænskum vinnufélaga mínum upp eftir. Ekki tók okkur langan tíma að ýta hlassinu af og stekk ég upp á pallinn til að raða verkfærum og öðru, svona eins og maður gerir.
Þegar ég hoppa svo aftur niður stíg ég á þilið sem lokar pallinum frá hliðinni, allt eins og venjulega nema að þessu sinni opnast hliðin öll. Þá hefst teiknimyndaserían. Ég flaug af pallinum og steyptist beint á andlitið ofan í forarsvaðið. Gleraugun og derhúfan urðu hinsvegar eftir í lausu lofti, rétt eins og Don Martin hefði teiknað atriðið (Hljóðin svoru swoooopp, klank, rattlietattliestump og doink).
Þar sem ég var hálfvankaður eftir ósköpin fékk ég Svíann til að keyra en höfuðhöggið aftraði mér ekki frá því að mana strákinn í að keyra yfir risastórt forarsvað. Það var hrikalega gaman og var bíllinn ansi nærri því að festast á tímabili. Allt fór þó vel að lokum og ég komst aftur í áhaldahús til að fara í sturtu og skipta um föt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli