laugardagur, 16. september 2006

Fornar slóðir

Í dag vorum við algerir túrhestar og hjálpaði Elfar okkur að haldast í karakter. Túrinn hófst í Jónshúsi þar sem við skoðuðum sýningu sem haldin er Jóni og Ingibjörgu konu hans til heiðurs. Sýningin var hin fróðlegasta. Bakvið Jónshús er gamalt hverfi og gengum við um það en ekki eru þó öll húsin gömul, þó þau séu byggð í sama stíl. Elfar tjáði okkur að það hús sem hann hefði búið í við Rigensgade væri þar ekki lengur.

Það að húsið hefði verið rifið kom engum á óvart því tengdafaðir minn hafði kosið að búa þar einmitt af því að það átti að rífa þau og því var það ókeypis. Í nostalgíu gamalla tíma gengum við í humátt að þeim veitingastað sem Elfar og félagar sóttu á þessum tíma. Ólíkt húsinu við Rigensgade var Kínó á Dronningens tværgade á sínum stað. Þaðan vinkuðu fastagestir drottningunni þegar hún leið rólega hjá í Jagúarnum.

Ekki gátum við verið þekkt fyrir að hunsa Krónprinsessugötu svo við bönkuðum þar uppá og fékk krónprinsessan timbraðan dachshund frá ferðamanninum. Eftir notalegt kaffi og spjall var haldið áfram að túrhestast og var rúnturinn eftir þetta í stuttu máli: Kongens Have, Marmarakirkjan, Amalienborg, Christianshavn og óhjákvæmilega Morgenstedet í Kristjaníu.

Metró- og strætisvagnar voru því kærkomin hvíld fyrir þreytta fætur eftir góðan dag.

Engin ummæli: