sunnudagur, 17. september 2006

Á hafnarslóð 2

Í fyrra fórum við skötuhjú í skemmtilegan rúnt um borgina sem við kölluðum Á hafnarslóð 1. Ætlunin var alltaf að fara fljótlega í túrinn Á hafnarslóð 2, þar sem við skoðuðum fleiri merka muni við höfnina, en aldrei varð úr því.

Í dag, nákvæmlega ári frá fyrsta hafnartúr, létum við loks gamlan draum rætast og fórum í seinni hafnarferðina. Að þessu sinni var pabbi með í för sem sérlegur gestur og leiðsögumaður. Við tókum hjólin með og höfðum fengið eitt aukahjól að "láni" frá ruslahaugunum í vinnunni svo sérlegur gestur gæti líka hjólað um.

Af því sem helst ber að nefna var að í Fælled Parken hrópaði Baldur allt í einu upp fyrir sig: Fíll framundan!

Sirkus Dannebrog var sem sagt með sýningartjald sitt í einu horni garðsins og þar kenndi ýmissa grasa: lamadýr, póníhestar og kameldýr.

Við fengum einnig símtal frá Öldu frænku í Ameríkunni, settumst á huggulegt kaffihús við Søerne, gengum hringinn í kringum Kastallet, kíktum á Litlu hafmeyjuna og nýju systur hennar, hjóluðum meðfram Löngulínu, skoðuðum Gefjunarbrunn á bakaleiðinni og mötuðumst á Nýhöfn. Hjóluðum síðan heim í myrkrinu, eitt okkar á stolnu hjóli og ljóslausu í þokkabót.

Engin ummæli: