mánudagur, 4. september 2006

Frugtplantagen

Í dag fór ísraelsk samstarfskona mín, Shosh, í frí og göngum ég og pólskur vinur minn eftirlitslausir um Sydhavnsvæðið án eftirlits. Hluti af vinnusvæði okkar er lóðin þar sem gömlu höfuðstöðvar DSB eru. Önnur vídd, rétt eins og ævintýraland inn í miðri borginni.

Fyrr í sumar sló ég grasið þarna, óafskiptur á opnum sláttutraktor, í hitabylgju dauðans. Lítið eru um mannaferðir því bróðurpartur starfseminnar hefur verið fluttur annað, hagræðing kallast það víst. Þeim mun ljúfara fyrir mig. Akandi innan um eldgamla lestarvagna, minningar á teinum. Alls kyns græjur sem enginn man hvernig á að nota en augað kann að meta.

Á svona slóðum er ágætt að verða olíulaus og það var einmitt það sem Kristine, sem nú keyrir sláttuvélina, lenti í. Þá liggur beinast við að hringja í tvo eftirlitslausa gemlinga og biðja um olíu. Við brugðumst hinir bestu við og úr því að við vorum komnir í þetta ævintýraland stöldruðum við um stund. Fyrst ráfuðum við í eina áttina og strípuðum hvern brómberjarunnann á fætur öðrum og þegar við höfðum fengið fylli okkar kjöguðum við í hina áttina að sælureit sem kallaður er frugtplantagen.

Flötin er nefnd þessu nafni því þarna vaxa margs konar epla-, peru-, ferskjutré og meira að segja vínviður með alvöru vínberjum! Það er óhætt að segja að við höfum létt aðeins á sliguðum greinum aldintrjánna, duglegir drengir.

Engin ummæli: