Hér kemur saga af Tine sem ég er að vinna með í garðyrkjunni:
Einn daginn stóð Tine kasólétt úti á horni að reyna að húkka sér far upp á fæðingadeild. Þungt snjólag lá yfir öllu og strætisvagnabílstjórar Kaupmannahafnar töldu það næga ástæðu til að fara í verkfall. Ekki náðist í leigara svo hún fékk far með ungu pari. Þau ráku upp stór augu þegar hún sagðist vera á leið upp á fæðingadeild. Ungi maðurinn leit rannsakandi á hana, fékk staðfest að hún væri líklegast að segja satt þegar fyrirferðamikill maginn blasti við og negldi á bensíngjöfina eins og hún væri í miðri hríð og vantaði bara skæri og hrein handklæði. Hann endursendist yfir bæinn upp á spítala og henti henni í fangið á næstu hjúkurnarkonu, feginn að vera laus við þessa tímasprengju. Þessa sögu sagði hún mér af sinni stóísku ró og maður gat alveg ímyndað sér að hún hafi verið jafnróleg við þessar aðstæður eins og hún var að segja söguna. Henni er ekki fisjað saman henni Tine.
Smá viðbót sem ég vil endilega birta verandi vetrarbarn og allt það:
Mágkona hennar Tine hélt stórveislu um daginn þegar hún varð 39 ára, 7 mánaða og 8 daga gömul, svona eins og maður gerir. Hennar rök voru: Ég vil frekar halda upp á afmæli að sumri til úti í garði og svo leiðast mér fertugsafmæli. Góður hugsunargangur, ætla að taka hann til greina í framtíðinni :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli