miðvikudagur, 6. september 2006

Tungutaksþjálfun

Þið haldið kannski að ég sé að vísa í dönskuna með þessari fyrirsögn. Það er alls ekki málið, ég er að tala um þjálfun í íslensku. Þegar maður vinnur að MA ritgerð verður málfarið að vera upp á sitt allra besta og þegar níðst hefur verið á því í gegnum árin með enskum fræðitexta, og nú undir það síðasta með poppaðri dönsku úr dagblöðunum MetroXpressen, Urban og Dato, er hætta á að eitthvað gefi sig.

Þar sem ég er forsjál ung kona var ég búin undir þennan vanda og tók á sínum tíma góðar bækur með mér út til Danmerku, ef ske kynni að ég týndi niður móðurmálinu. Með það fyrir augum að auðga hið ástkæra ylhýra íslenska hef ég lesið Alkemistann og Söguna af Pí. Eins og þær eru skemmtilegar hefur þetta ekki verið skemmtilesning ein því í hvert sinn sem ég rek augun í orðfæri sem hrífur mig neyðist ég til að skrifa það niður.

Núna er ég líka komin með dágott frasasafn til að ganga í. Eða hvað mynduð þig kalla lista sem m.a. samanstendur af orðfæri á borð við njörvað á klafa, segja deili á, loku skotið fyrir og uppáhaldið mitt, enginn fitnar af fögrum orðum. Ég sé samt ekki hvernig ég kem þeim frasa inn í ritgerð um pólska innflytjendur á Íslandi.

Engin ummæli: