Fyrri partur þessa sunnudags fór í að pakka í kassa og sem vegleg verðlaun fyrir aðdáunarverða frammistöðu og þrautseigju stukkum við seinnipart dags upp í strætó og kíktum til Drageyrar. Sú heimsókn var liður í prógramminu okkar Borgin kvödd en á því prógrammi er einnig að finna heimsókn til Hróarskeldu og glugg í Louisiana safnið, hjólreiðatúr um Østerbro og glugg í Glyptotekið.
Drageyri er lítill, gulur bær í um klukkutíma fjarlægð frá NordVest. Þar er víst dýrt að búa og get ég vel skilið það eftir heimsókn þangað. Bærinn er einstaklega huggulegur og kúrir við sjóinn. Rík hefð er fyrir síldveiði þar um slóðir og fyrir vikið er mikil fiskimenning í bænum.
Bæjarbúar virðast við fyrstu sýn natnir úr hófi fram. Til marks um það sáum við einn eldri herramann dytta að glugga á húsinu sínu og ungt par mála girðinguna kringum húsið sitt. Allt þetta dútlerí gaf mjög svo skemmtilegan brag á bæinn þó unga parið hafi frekar verið að mála hann svargrænan en rauðan.
Við kvöddum síðan bæinn með því að kasta hálfétinni, belgískri vöfflu til andanna sem svömluðu um í höfninni. Þá varð uppi fótur og fit meðal andanna og teljum við það stafa af uppnámi sem þær komust í yfir brottför okkar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli