Oft hef ég talað illa um reykingar og gert gys að reykingafólki. Fíkn reykingafólks lýsir sér þannig að það byrjar að fikta og svo smáeykur það skammtinn, jafnt og þétt. Nú telja flestir sem þekkja til mín að ég sé ímynd heilbrigðs lífernis, meitlaður í marmara eins og stytta af grísku goði.
Ég verð hins vegar að hryggja ykkur með þeim sláandi fréttum að ég reyki. Það er hins vegar ekkert nýtt af nálinni. Ég byrjaði að reykja sem barn og reykti þá bæði heima hjá mér og úti um hvippinn og hvappinn. Síðar meir þróaði ég neysluna þannig að ég gat reykt allt að fimm tegundir í einu. Eina prinsippið er að reykingarnar eru selskapsnautn, ég reyki aldrei einn.
Ég átti nokkur reyklítil ár á Íslandi ef frá er talin árstíðabundin neysla á asfalti. Eftir að ég flutti hingað til Danmerkur hef ég hins vegar, eins og svo margir, smáaukið neysluna. Í dag reyki ég aðallega það sem nágranninn og samstarfsfélagar velja fyrir mig og ef ekkert annað er í boði læt ég dísel eða blýlaust duga en asfaltið hef ég að mestu látið eiga sig undanfarið ár. Það besta við þennan ómerkilega löst minn er að hann kostar ekki svo mikið sem skitna krónu og svo er þetta svo gott!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli