fimmtudagur, 28. september 2006

Skúrað við kertaljós

Í gær buðum við Jóni vini okkar í kaffilaust kaffiboð. Kaffiboðið var kaffilaust því kannan var í einum af kössunum sem við bárum niður í sendibíl. Þetta gekk eins og í lygasögu og áður en við vissum af vorum við búin að raða kössunum á pallettu, plasta allt heila gilimóið og senda það af stað til Íslands.

Heim komum við Jónslaus en fengum í staðinn Hilmar og fleiri í soðið og var íbúðin meira og minna tæmd á örskotsstundu. Við tóku svo ýmsir smásnúningar og ævintýri, þar á meðal að sitja föst í trafík martraðar og þurfa að keyra inn einstefnugötu og leggja þar á móti umferð til að ná að kasta kveðju á Froskana áður en þeir héldu til Íslands.

Eftir að hafa kvatt Froskafjölskylduna og tekið við lyklavöldum í slottinu þeirra tóku við lokaþrif á Frederikssundsvej.Íbúðin var galtóm og því auðvelt að þrífa nema hvað ekki var mikið um lýsingu þar sem allir lampar voru á bak og burt. Úr varð að við skúruðum, skrúbbuðum og bónuðum við kertaljós.

Engin ummæli: