Við tókum rútuna í dag frá Hanoi (bless bless) yfir til Ha Long borg sem er nokkurn veginn beint austan af Hanoi og kúrir við Ha Long flóa. Við vissum ekki hvenær rúta þangað færi en vorum svo heppin að mæta tveimur mínútum fyrir brottför og fá fín sæti í loftkældum míní vagni.
Á leiðinni til Ha Long keyrðum við framhjá ótalmörgum hrísgrjónaökrum og á þeim sáum við m.a. Víetnama með hattana sína típísku að beita uxa fyrir plóg, hvítar Andrés andar endur í sefinu, vatnabuffala að tyggja sefið og forfeðraölturu. Við fengum líka okkar skammt af víetnamskri tónlist því í vagninum var bílaspilari með litlum skjá og miðasalinn heimtaði að spila klassísk tónlistarmyndbönd. Ólíkt upplifun okkar af tónlist í indverskum rútum voru víetnömsku myndböndin skemmtileg og tónlistin þægileg.
Eftir þriggja og hálfstíma ferð með vagninum vorum við loks komin á áfangastað. Eftir mikla leit fundum við herbergi með loftkælingu á ásættanlegu verði ($8) í þeim hluta bæjarins sem kallast Bai Chay. Við drifum farangurinn upp þessar fjórar hæðir og að sturtu lokinni héldum við út að finna okkur eitthvað í gogginn. Enduðum á velja á milli tveggja alveg eins veitingastaða sem voru meira að segja hlið við hlið.
Þegar núðlusúpan mín var borin fram kom í ljós að hún var ekkert spes. Hún varð þó enn síður skemmileg þegar ég fann flugu í henni. Við það tækifæri varð ég að gjöra svo vel og nota setninguna góðkunnu: Þjónn, það er fluga í súpunni minni. Sem betur fer var þjónninn ekki vel að sér í þessum brandaraflokki og kom ekki með eitthvert sniðugt tilsvar sem gæti hafa látið mig líta út eins og fáfróða ferðamanninn. Í þetta sinn hafði viðskiptavinurinn með flugu í súpunni rétt fyrir sér, flugan átti bara ekki neitt að vera í súpunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli