Við heimsóttum tvo háttsetta kommúnistafélaga í dag: Ho Chi Minh og Lenin. Það er ekki hægt að heimsækja Víetnam án þess að kíkja á blessaðan Ho Chi Minh, jafnvel þó hann sé dauður og grafinn. Nei, bíddu, hann er ekki grafinn, lík hans er varðveitt í grafhýsi hér í Hanoi og straumur af fólki kemur að heimsækja hann á degi hverjum.
Við gerðumst svo fræg að bætast í þennan straum í gær, nema hvað grafhýsið og safnið var lokað og aðeins hægt að ganga um grundir forsetahallar hans og skoða stultuhúsið sem hann bjó í um tíma.
Í dag gerðum við aðra tilraun til að sjá Ho frænda (ekkert grín, hann er kallaður Uncle Ho!). Í þetta sinn notuðumst við við cyclo sem eru hjólaléttivagnar, nema hér á bæ sitja farþegar framaná en ekki að aftan eins og í Indlandi. Baldur hafði gerst svo djarfur að klæðast rauðum hlírabol sem ekki þótti standast skilyrðin sem uppfylla þarf fyrir heimsókn í grafhýsið. Helstu skilyrðin eru þau að fólk klæði sig sómasamlega (need to have strictly, dress neatly and tidily) og alls ekki ófrómlega (no permit to objects entering […] in unserious costume), maður má ekki vera veikur eða slæmur til heilsunnar né vera laus við mannasiði (culturedless manner).
Við skemmtum okkur stórvel að lesa þessar reglur en eins og áður segir þótti annað okkar ekki nógu prúðbúið og varð því að kaupa dömusjal á $2 (herraskyrtur voru á $5, betri kaup í sjalinu). Síðan urðum við að skila myndavél og vatn eftir, ganga í gegnum öryggishlið og þá loksins fengum við að fara í langa röð. Sem betur fer gekk hún hratt fyrir sig, hvítklæddu öryggisverðirnir sáu til þess.
Inn í grafhýsinu sjálfu var svalt og gott að vera. Lík Ho Chi Minh liggur í glerkistu (eins og Mjallhvít) sem er niðurgrafin og varin með vegg svo enginn komi of nálægt. Ef til þess skyldi koma eru fjórir vopnaðir verðir til taks við hlið kistunnar. Verðir meðfram veggjum stugga við fólki og koma í veg fyrir að hægist á röðinni, allt mjög skilvirkt. Þeir sjá einnig til þess að maður taki af sér hatta og sólgleraugu og sýni tilhlýðilega virðingu, ég var bara fegin að enginn ætlaðist til þess að við færum að grenja.
Eftir grafhýsið tókum við rúnt um Ho Chi Minh safnið (sem er skemmtilega framsett), héldum þaðan með xe om að Lenin Park. Áður en við heimsóttum Lenin fengum við okkur þó hressingu á veitingastað við vatn, sárast tók mig að eftirrétturinn mous sôcôla skyldi vera búinn.
Lenin Park er grænn eins og allt Víetnam en má greinilega muna fífil sinn fegurri. Fáir gestir í garðinum, örfáir íþróttálfar að æfa og kærustupör að kela á bekkjum. Í miðjum garðinum er mikið vatn og kringum það liggur göngustígur. Í garðinum eru járnbrautateinar, ryðgaður rússíbani og hringekja fyrir börnin, ekkert þeirra þó í gangi og enginn í kring til að nota þau.
Við sáum Lenin ekki að þessu sinni, þurfum víst að halda til Moskvu til þess. Það bíður bara betri tíma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli