Við vorum dugleg þessa helgi í Hanoi. Eftir ferskan mangósafa á kaffihúsinu Little Hanoi 2 (sem tengist veitingastaðnum Little Hanoi 1 ekki neitt!) tókum við xe om á Etníska safnið í Víetnam. Xe om eru mótorhjól sem virka eins og leigubílar og skutla manni um alla borg. Hér flauta menn í umferðinni og keyra eins og bjánar og við héngum hjálmlaus aftan á mótorhjóli og héldum dauðahaldi í Víetnama með grænan kúluhatt og gula tusku fyrir vitunum. Við komumst þó heilu og höldnu á áfangastað, urðum reyndar að kreista aftur augun á stundum.
Á safninu skoðuðum við handverk hinna mörgu etnísku hópa sem búa í Víetnam: leirkerasmíð, kopar, lakk, útskurð, vefnað, hattagerð, veiðigildrur, húsagerð, frjósemisstyttur, altari til forfeðradýrkunar o.s.frv.
Frá safninu héldum við niður að Cam Chi götu sem er rómuð fyrir góðan götumat. Þar fengum við okkur núðlusúpu og nýbakaða bagettu út á stétt innan um heimamenn í helgarfíling. Við gengum frá Cam Chi um Gamla hverfið og reyndum að finna leiðina heim. Þar sem Víetnamar notast við rómanskt letur ólíkt öðrum nágrannaþjóðum ætti að vera auðvelt að komast leiðar sinnar en einhvern veginn villtumst við um allt, inn á ómerktar götur og útimarkaði. Enduðum á því að kíkja á gömul áróðursspjöld kommúnistanna, borða á Bar 69 og finna leiðina heim á hótel.
Á sunnudeginum keyptum við okkur sitthvorn hattinn til að verja okkur gegn geislum sólar, Baldur fékk sér derhúfu með kommúnistastjörnu, ég fékk mér hefðarfrúarhatt með stóru barði og slaufu! Kíktum því næst á morgunsýningu vatnabrúðuleikhússins hér á bæ. Vatnabrúðuleikhús er norður víetnömsk hefð sem hrísgrjónabændur fundu upp í fyrndinni og á hátíðum sýndu þeir brúðuleik sinn á vatnsfylltum ökrunum fyrir þorpsbúana.
Eftir sýninguna röltum við í kringum Hoan Kiem vatn og fylgdumst með Hanoibúum á sunnudegi: fjölskyldur á kaffihúsum og kærustupör á bekkjum. Komum við í bakarí og keyptum okkur bánh sôcôla (f. pain au chocolat) sem stóðst allar væntingar og var franskt út í gegn.
Eftir hvíld inn á loftkælda herberginu okkar yfir heitasta og rakasta tíma dagsins kíktum við í Memorial House og sáum hvernig kaupmenn og hinir velmegandi lifðu áður fyrr í Hanoi borg. Sáum hauskodda úr bambus, flotta tekatla og bolla, skeiðar og gaffla úr skeljum, matarprjóna og allt sem þeim fylgir, mandarín letur á hrísgrjónapappír.
Eftir helgina þekkjum við aðeins betur inn á Víetnam og fólkið sem hér býr. Maturinn er verulega góður en dýr, allt er gefið upp í dollurum en svo borgar maður í dong, sölumenn og leigubílstjórar eru ótrúlega uppáþrengjandi en aðrir íbúar virka afslappaðir. Umferðin gefur ekkert eftir og rautt ljós hefur litla sem enga merkingu, til að komast yfir götu þarf maður að sigla hægt og rólega inn á hraða götuna og smeygja sér milli mótorhjóla og vespa. Við erum líka búin að læra að bera Víetnam fram rétt: Vjedd naaaam. Og hafa það nefmælt takk fyrir!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli