Þá erum við komin til Víetnam. Við lentum í gærkvöldi í Hanoi eftir tíðindalaust flug með lággjaldaflugfélaginu Air Asia. Þurftum að fylla út komuspjald með grænu eða svörtu letri (!), fengum því næst stimpil í vegabréfið hjá innflytjendaeftirlitinu á flugvellinum: Velkomin til sósíalíska lýðveldisins Víetnam!
Á flugvellinum héldum við beint í hraðbankann til að taka út seðla í víetnamskri mynt, dong. Víetnömsk mynt er augljóslega mjög veik því við tókum út 1 milljón dong sem samsvarar tæpum fimm þúsund krónum. Við höfum nú aldrei tekið út svo háa upphæð í hraðbanka en einhvern tímann er allt fyrst :o)
Við hraðbankann hittum við tvo Svía og deildum með þeim leigubíl niður í bæ. Þegar ég settist inn í leigubílinn fannst mér eitthvað skrýtið við leigubílstjórann, gat þó ekki sett fingurinn á nákvæmlega hvað ylli þessari tilfinningu. Þegar við komum síðan út í umferðina áttaði ég mig á því hvað málið var. Í Víetnam er hægri umferð sem þýðir að bílstjórinn sat vinstra meginn í bílnum og það fannst mér svo skrýtið. Hægri umferð er skrýtin!
Við fengum strax þarna á byrjunarreit smá nasasjón af kommúnistastjórninni. Við höfðum ekki keyrt lengur en í þrjár mínútur með leigaranum þegar flugvallalöggur stöðvuðu bifreiðina og tóku bílstjórann á beinið. Við vorum vinsamlegast beðin um að fara út úr bílnum með allt okkar hafurtask og okkur lofaður nýr leigari. Við botnuðum að sjálfsögðu ekkert í málinu og léleg enskukunnátta víetnömsku lögreglunnar hjálpaði ekki, eina sem þeir gátu sagt var "problem with security".
Robert, annar Svíanna, var meira að segja beðinn að fylla út skýrslu, en þá var farið að sjóða á mér því ég vildi komast inn á hótel sem fyrst en ekki standa út á miðri hraðbraut með farangurinn milli fótanna eins og flóttahundur. Svo ég lét í mér heyra og kom f-orðinu fyrir í annarri hverri setningu, Víetnömunum til undrunar. Þeir báðust afsökunar á ónæðinu í bak og fyrir en ég sagði bara að þeir væru crazy. Allt í boði Indlandsreynslunnar :o)
Þegar við loksins fengum að halda för okkar áfram fundum við flott herbergi á hóteli í hjarta gamla hverfisins. Og ég meina alvöru flott með drifhvítu líni, dökkum og lökkuðum viðarhúsgögnum, veggfóðri og veggljósi, sjónvarpi og DVD spilara, ísskáp og loftkælingu, algjört dekur. Fórum síðan með Svíunum á veitingastaðinn Little Hanoi 1, flissuðum yfir verðlaginu á matseðlinum, fengum mjög góðan mat og sátum að snakki fram til hálfeitt en þá urðum við að fara til að ná heim fyrir útgöngubann.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli