Í dag tókst okkur að ná rútu til Ninh Binh og endurtókum í raun leikinn sem við lékum þegar við tókum rútuna til Halong borgar frá Hanoi um daginn. Mættum á rútustöðina upp úr hádegi eftir að hafa kvatt Hanoi í annað sinn á stuttum tíma og vorum fimm mínútum síðar komin upp í mínívagn á leið til Ninh Binh.
Þegar maður situr orðið svona mikið í rútum fer ekki hjá því að einhverjir hugrenningar slæðist upp á yfirborðið. Það er til að mynda gott að nota rútuferðir til að vega og meta landið sem maður er að heimsækja þá og þá stundina. Víetnam er ekkert öðruvísi en Indland með það að rúturferðir eru kjörin leið til að kynnast landi og þjóð betur.
Þannig höfum við tekið eftir sérkennilegu háttarlagi Víetnama í kringum loftkælingu í rútum. Fyrst þegar við fórum í loftkældan vagn hér í Víetnam gekk allt snuðrulaust fyrir sig en þegar við tókum Klepp hraðferð í gær var annað upp á teningnum og sama vitleysan endurtók sig síðan í dag. Þessi vitleysa lýsir sér í því að farþegar og miðasölumenn sérstaklega eru að opna glugga og dyr rútunnar í tíma og ótíma. Fyrir vikið verður loftið rakt og heitt og fljótlega verður alveg óbærilegt inn í rútunni.
Í dag fengum við þá útskýringu frá heimamanni að fólk kærði sig oft einfaldlega ekki um alla þessa loftkælingu og opnaði öll fög til að hleypa raka og hita inn. Og við sem héldum að þetta væri á einhverju órökréttum viðbrögðum byggt!
Annað sem er skemmtilegt að minnast á eru auglýsingaskiltin sem maður rekur augun í á vegum úti. Algengast er að verið sé að auglýsa com (hrísgrjón), bó (nautakjöt) og pho (núðlur). Einnig er mjög algengt að sjá fólk í umferðinni með maska fyrir vitunum og fást þessir maskar að því er virðist í öllum regnbogans litum, sbr. sá guli sem xe om bílstjórinn okkar bar fyrsta daginn okkar í Hanoi.
Að lokum eru það háu hanskarnir sem konur skarta margar hverjar utandyra og er sú tíska í takt við hvítunarkremin sem fást hér í Suðaustur Asíu. Hver vill svo sem fá sólbrúna upphandleggi þegar maður getur gengið með frúarhanska uppfyrir olnbogabót í 40 stiga hita?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli