Í morgun tókum við vespu á leigu, þvílíkt frelsi. Í dag þurfti ég ekki að prútta um eitt einasta far því bensínverðið er fast. Frelsið nýttum við okkur til að keyra út fyrir bæinn á stað sem heitir Tam Coc og er stundum kallaður Halong flói hrísgrjónaakranna.
Landslagið á þessum stað er alveg magnað og einkar notalegt að fylgjast með því meðan maður líður hjá á litlum árabáti. Ekki fórum við framhjá öllum klettunum því stundum var hægt að róa undir þá með því að fara í gegnum hella. Öfugt við það sem tíðkast í kexverksmiðjunni töldum við okkur heppin með veður þar sem sólin skein ekki.
Báturinn var knúinn áfram af tveimur hressum kerlingum, 49 og 60 ára, eitthvað hjálpaði ég nú líka til sjálfur. Sérstakt þótti mér að sjá hvernig þær báru sig að róðrinum. Ýmist réru þær með höndum eða fótum og líktist það helst hjólatúr þegar fótunum var beitt en handaflið notuðu þær akkúrat öfugt við það sem við gerum heima og sneru fram í bátnum.
Þær kjöftuðu við okkur á víetnömsku í bland við frönsku- og enskuhrafl. Með mátulegum endurtekningum og handapati skildist flest. Þegar ferðin var hálfnuð fengu þær sér eitthvað sérvíetnamskt orkukex og gáfu okkur með. Nokkrum mínútum síðar kom í ljós að kexinu var ætlað að mýkja okkur fyrir háalvarlegan viðskiptafund um útsaum og stuttermaboli. Við stóðumst freistingarnar.
Ekki svalaði jullan á hrísgrjónaakrinum ævintýraþorstanum meira en svo að sakleysisleg heimsókn í klettahofið Bich Dong varð að heljarinnar fjallgöngu með klettaklifri í bland. Hvött áfram af þremur litlum stelpuskjátum og eðlislægri forvitni klifum við hamarinn og horfðum yfir iðagræna hrísgrjónaakra meðan við gæddum okkur á bagettu, hressum beljuosti og túnfiski í tómatsósu.
Á einu af makindalegustu augnablikunum rákum við augun í drengjahóp í sigurvímu. Þeir voru að rifna af stolti yfir að hafa komið sér upp á nálægan en nokkru lægri hól en okkar. Sem þeir litu upp og sáu okkur hvarf úr fasi þeirra öll sú gleði sem einkennir fjallgöngumenn á toppnum og í staðinn kom yfir þá óþreyja þess sem er alveg að ná á tindinn.
Þetta var allt eins og í teiknimynd og í hugsanablöðrum þeirra stóð: Hei, til hvers að príla upp á litla grjóthrúgu þegar þessi við hliðiná er miklu stærri? Furðufljótt voru þeir svo komnir upp til okkar og deildu með okkur vissu þess sem veit og getur.
Sennilega ekki hægt að kalla þetta lautarferð en eftir þetta brölt var ævintýraþörfin alveg orðin södd og rólegur vesputúr um nærsveitir látinn duga fram að kvöldmat. Í túrnum sáum við daglegt líf hrísgrjónaverkafólks, krakka að baða sig í ánni, anda- og gæsasmölun, flugdreka á lofti og margt, margt fleira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli