mánudagur, 2. júlí 2007

Cuc Phuong þjóðgarðurinn

Það er ekki ofsögum sagt að Víetnam sé fallegt land, það vitum við nú eftir hjólarúnta gærdagsins og dagsins í dag. Hvergi höfum við litið eins mikinn gróður og mikla grænku. Hrísgrjónaakrar á hverju strái, maísakrar þess á milli, limestone klettar rísa upp úr jörðinni, ár renna um landsspildur og forfeðraaltörun bæta skærrauðum inn í landslagið og mynda skemmtilega andstæðu við heiðbláan himininn.

Í dag fengum við að horfa á fegurð landsins meðan við rúntuðum annan daginn í röð um sveitirnar í kringum Ninh Binh. Að þessu sinni vorum við á leið í þjóðgarðinn Cuc Phuong sem er sá merkilegasti í Víetnam (Ho Chi Minh gaf sér meira að segja tíma til að heimsækja garðinn á sínum tíma). Við höfðum í fórum okkar ansi einfalt kort af svæðinu (hálfgerðan uppdrátt) sem átti að hjálpa okkur að komast leiðar okkar. Oft stoppuðum við þó til að spyrja til vegar og í hver sinn bættum við framburð okkar á víetnömskunni. Að lokum vorum við farin að hrópa á fólk Kúkk Fooong! og halda förinni í þá átt sem handa- og höfuðbendingar gáfu til kynna.

Miðja vegu lentum við í smá skúrum og urðum að leita skjóls undir stóru tré við veginn. Við drógu við það tilefni fram tvo bláa ponsjóa sem við steyptum yfir höfuðið, stukkum því næst á fákinn og héldum áfram. Það þarf varla að taka fram að þegar við loks vorum búin að troða okkur í plastpokana með milli fyrirhöfn var hætt að rigna.

Þegar við náðum að þjóðgarðinum tókum við stefnuna beint á björgunarmiðstöð prímata í útrýmingahættu. Þar sáum við svarta lemúra með löngu skottin sín og skottlausu gibbonana með löngu handleggina sína. Við sáum líka nokkra prímataunga sem voru drop-dead-gorgeous, excuse my French.

Frá björgunarmiðstöðinni héldum við lengra inn í þjóðgarðinn, eina sjö kílómetra, allt að helli frummannsins. Við tókum vasaljós á leigu, klifum þessi tvö hundruð hálu þrep upp að munna hellisins, virtum fyrir okkur reykelsin sem potað hafði verið þar niður til heiðurs forfeðrunum (í þessu tilfelli frumforfeðrum), héldum lengra inn í hellinn þangað til við heyrðum í leðurblökum tísta og fundum fyrir vængjaslættinum við eyrum. Römbuðum á fáránlega brattann stiga sem við að sjálfsögðu urðum að klífa, gengum um ýmsa ranghala hellisins, lékum draugahljóð og tókum draugamyndir, príluðum upp kletta sem ekki á að príla á, virtum fyrir okkur leðublökuskít og tókst að forðast að ganga gegnum kóngulóarvef. Sem sagt allt sem tilheyrir góðri hellaheimsókn.

Þegar við komumst aftur til siðmenningar (mótorhjólakrílisins) urðum við að draga fram sítrónellu og Tiger balm því móskíturnar við hellinn höfðu staðið sína vakt og bitið okkur í tætlur. Við vorum því fegnust að komast aftur á fákinn og fá gustinn í fangið. Sögðum það gott af þjóðgarðinum, urðum að leggja tímanlega af stað til að ná heim fyrir rökkur.

Ferðin út eftir tók okkur tvo tíma, ferðin heim ekki nema rúman klukkutíma. Á leiðinni keyrðum við framhjá óteljandi mörgum og stórum hrísgrjónaökrum og sáum ófáan hrísgrjónaverkamanninn speglast í vatnsfletinum. Við stoppuðum til að mynda vatnabuffala í bak og fyrir og gefa sveitabörnunum víetnamskt gotterí, bættumst síðan í hóp verkamanna á leið heim að loknum vinnudegi í verksmiðjunni.

Engin ummæli: