Ekki er hægt að segja að neitt hafi gengið eftir áætlun í dag, eða í það minnsta ákaflega fátt. Til að yfirgefa Halong borg þarf að kaupa rútumiða og til að kaupa hann þarf að eiga peninga og til að nálgast þá þarf að komast í hraðbanka.
Í bænum eru tveir hraðbankar og virkaði hvorugur sem skyldi og þá vorum við nú fegin að hafa í fórum okkar ferðatékka, gengum í bankann. Þar sem hann var auðvitað lokaður fórum við aftur í hraðbankann og jesssssss, hann virkaði!
Þegar komið var á rútustöðina reyndist síðasta rútan til Ninh Binh (bæjarins sem við ætluðum til) vera nýfarin og til að komast örugglega í burtu stoppuðum við rútu sem var að renna úr hlaði og spurðum hvert hún færi, Hanoi var svarið og við um borð.
Þess ber að geta að eftir rútuferðina frá Hanoi bjuggumst við aðeins við hinu besta: Loftkælingu, farangursrými og rólegu fólki. Í þessari rútu var jú loftkæling en hún var sjaldnast notuð, rólega fólkið og farangursrýmið voru ekki í boði.
Fyrir framan okkur sat blindufullur karl með lifandi fiska í fötu og við hliðina á mér sat miðavörðurinn sem sennilega borðar rítalín í morgunmat. Báðir skoðuðu okkur í krók og kring, störðu, og sögðu eitthvað við okkur á víetnömsku. Þegar miðavörðurinn var farinn að strjúka mér um handleggina og klípa var mér öllum lokið og á íslensku bað ég hann að gjöra svo vel að hafa sig hægan, það gekk eftir.
Ferðin var í sjálfu sér alger lúxus við hliðina á því sem við kynntumst í Indlandi en ég get ekki sagt annað en að ég hafi verið feginn þegar við komum til Hanoi. Það besta við þessa ferð var að hún setti okkur í hinn margfræga Indlandsgír, engin miskunn, og fékk leigubílstjóri nokkur að finna fyrir því.
Þegar rútan kom til Hanoi lágu leigubílstjórarnir á gluggum langferðabílanna í von um ferskt blóð og taldi einn sig hafa komist í feitt þegar við völdum bílinn hans. Eftir nokkurn spöl sáum við að gjaldmælirinn gekk á a.m.k. tvöföldum hraða. Í sannkölluðum Indlandsham flettum við upp orðinu lögregla á víetnömsku, sögðum kauða að beygja út í kant og tókum hann á beinið.
Skemmst er frá því að segja að við komumst á sanngjörnu verði, heilu og höldnu, á sama hótel og síðast. Kleppur hraðferð er orðinn að skemmtilegri minningu.
2 ummæli:
hugsa til ykkar - renningurinn.
Vá, ekki myndi ég vilja fá ykkur í leigubílinn minn, snarbrjálaðir Indverjar! Djók, flott hjá ykkur að láta kauða ekki komast upp með neitt rugl.
Skrifa ummæli